135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:28]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Atli Gíslason flutti langa og að mörgu leyti málefnalega en afar íhaldssama ræðu. Það er ekki tími til að gera henni allri skil. (GÁ: Þú varst nú íhald einu sinni.) Hann gerði umsagnaraðila að umtalsefni og svo virðist sem meiri hluti nefndarinnar hafi sýnt þeim ókurteisi með því að fara ekki að ráðum þeirra. Ég tel þetta á misskilningi byggt, svo að ég noti nú kurteislegt orðalag. Nefndir Alþingis eru ekki bundnar af því að fara eftir því sem umsagnaraðilar tjá sig um í umsögnum sínum. Í raun og veru eru viðbrögð okkar við þeim rökum sem fram komu gegn frumvarpinu á borðum okkar í þeim tillögum og því nefndaráliti sem meiri hlutinn leggur fram. (GÁ: Hlýða foringjanum.)

Skólarnir bárust í tal og var talað um að allir væru meira eða minna á móti frumvarpinu. Þess vegna vil ég sérstaklega taka fram að skólastjórar beggja bændaskólanna, á Hvanneyri og Hólum, voru frekar jákvæðir út í þessar breytingar sem og Bændasamtökin sjálf. (GÁ: Óttast að verða reknir.)

Kjarni málsins er sá að hér eru lagðar til breytingar á stjórnsýslunni og þeir sem eru íhaldssamir grípa til þeirra viðbragða að halda í óbreytt kerfi. Meiri hlutinn hér er einfaldlega að brjóta blað og gera tilraun til þess að hagræða á vettvangi stjórnsýslunnar og gera hana skynsamlegri. Það er verið að brjóta upp gamalt kerfi og viss andstaða er auðvitað gegn því á ýmsum stöðum í þjóðfélaginu en þetta er stefnan og (Forseti hringir.) við trúum að hún sé til réttrar áttar.