135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:33]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu hefur stundum verið nefnt bandormur. Ég taldi áður en þetta frumvarp var lagt fram að heitið bandormur næði til frumvarpa sem breytti mörgum lögum og næðu til margra annarra laga. Ég sé núna að ég hafði algjörlega rangt fyrir mér. Ég held að heitið bandormur nái fyrst og fremst til frumvarpa eins og þessa sem eru afa illa unnin, óvönduð, án nokkurs samráðs við þá sem eiga hagsmuna að gæta. Þannig mun skilningur minn á heitinu bandormur verða héðan í frá.

Það var mjög athyglisvert að hlusta á umræðu sem fór fram fyrr í dag þegar hæstv. umhverfisráðherra boðaði pólitísk stórtíðindi. Ég sem ungur alþingismaður beið mjög spenntur. Hæstv. iðnaðarráðherra lýsti þessu sem sögulegri stund. Það sem var fólgið í þessari sögulegu stund var að þrír ráðherrar lýstu stefnu Íslands á loftslagsráðstefnunni á Balí en hún er algjörlega óbreytt frá því sem verið hefur og ekkert nýtt sem kom þar fram. Ég hef áhyggjur af því að hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson hafi hér gengisfellt lýsingarorð í stórum stíl. Hann lýsti því yfir fyrr í haust eða sumar að ríkisstjórnin hefði boðað til einhverra stórkostlegustu mótvægisaðgerða í sögu ríkisstjórna almennt. Þessum mótvægisaðgerðum var best lýst af einum þingmanni stjórnarliðanna þegar hann kallaði þau dónaskap.

Með þessu frumvarpi, virðulegi forseti, er sagt að þessar breytingar muni almennt leiða til hagræðingar, einföldunar og aukinnar skilvirkni í stjórnsýslunni. Þetta kemur hvergi fram hjá þeim fjölmörgu umsagnaraðilum sem fengnir voru til að lýsa skoðun sinni á frumvarpinu. Þvert á móti kom þar fram sem rauður þráður að frumvarpið skapaði óvissu og að vinnubrögðin væru mjög óvönduð.

Í athugasemdum við frumvarpið er greint frá því að við myndun núverandi ríkisstjórnar hafi verið ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða og einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Ég tel að þessa breytingu og ástæðu þessa frumvarps megi fyrst og síðast rekja til skiptingar ráðuneyta og ráðherrastóla milli samstarfsflokkanna í ríkisstjórn síðastliðið vor. Hún var tekin á Þingvöllum á milli formanna stjórnarflokkanna án alls samráðs. Ekki er gerð minnsta tilraun til að meta faglega og með rökstuddum hætti áhrif þessara breytinga sem vissulega hefði þó verið þörf á.

Eins og ég sagði áðan kom fram í fjölmörgum umsögnum um frumvarpið að þessar breytingar hafi þveröfug áhrif við að einfalda og auka skilvirkni í stjórnsýslunni, þau muni þvert á móti skapa óvissu og vinnubrögðin séu óvönduð. Það er einnig mjög gagnrýnisvert að umsagnir vantar frá ýmsum stofnunum sem þurfa að sæta breytingum samkvæmt frumvarpinu. Og það má kannski líka benda á að hér vantar breytingar á heilbrigðisráðuneytinu og á sviði utanríkisráðuneytisins. Ég tel að það hefði verið full ástæða til að fjalla um þær breytingar samhliða þeim breytingum sem hér er mælt fyrir.

Það er líka athyglisvert að það vantar inn öll hin fjöldamörgu álit annarra nefnda en allsherjarnefndar. Í umhverfisnefnd, sem ég á sæti í, var farið á mjög löngum tíma og ítarlega yfir þær breytingar sem snúa að umhverfisráðuneytinu. Við fengum umsagnir frá fjöldamörgum aðilum og stofnunum og þessir aðilar komu svo til fundar við nefndina og lýstu þar skoðunum sínum. Í þeim umsögnum kemur fram að það er mjög margt gagnrýnisvert í þessu frumvarpi og lagðar eru til breytingar á því. Það er alveg sama hvort um er að ræða minni hluta eða meiri hluta nefnda, nánast allir leggja til ýmsar breytingar. Hvað gerir meiri hluti allsherjarnefndar? Hann hunsar allar þessar tillögur frá a til ö.

Þá veltir maður fyrir sér — vegna þess að í gær var umræða um breytingu á þingsköpum Alþingis, verið er að breyta vinnulagi Alþingis, auka skilvirkni, gera vinnustaðinn fjölskylduvænni — hvort allur sá tími sem fór í þessa vinnu í umhverfisnefnd hafi bara verið tímaeyðsla. (BÁ: Við lásum sjónarmið þín af athygli.) Já, ég þakka ykkur fyrir að hafa þó eytt tíma ykkar í að lesa ekki bara minnihlutaálitið heldur álit allra hinna fjöldamörgu umsagnaraðila. Ég vona að meiri hlutinn hafi þá líka lesið nefndarálit meiri hluta þessar nefndar, þar eru stjórnarliðar í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Mér finnst ansi langt gengið ef ríkisstjórnin knýr fram breytingar með slíkum þjösnaskap, ef ég má nota það orð.

Í athugasemdum við frumvarpið er fullyrt að víðtækt samráð hafi verið haft við þær stofnanir sem í hlut eiga. Þessi fullyrðing er beinlínis röng. Frumvarpið var samið án nokkurs samráðs við viðkomandi stofnanir, starfsmenn þeirra eða hagsmunaaðila. Sama gildir um stjórnarandstöðuna og það er þvert á þá stefnu sem var boðuð var í haust og síðastliðið sumar af hálfu hins mikla meiri hluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þá veltir maður fyrir sér stefnu Samfylkingarinnar sem hún boðaði um málefnalega samræðu, samráð og lýðræði. Þetta frumvarp er í beinni mótsögn við þá stefnuyfirlýsingu. Í kosningabaráttunni síðastliðið vor upplifði ég þessa stefnu um samræðupólitík þannig að samfylkingarmenn leyfðu sér að tala upp í eyrað á kjósendum hvar sem þeir voru staddir í það og það skiptið, þ.e. að kjósendur fengju að heyra akkúrat það sem þeir vildu heyra. Svo breyttist þessi afstaða auðvitað, milli bæja, milli landshluta eftir því hvort erfitt var að tala um málefnið eða ekki.

Ég vil líka benda á að þegar stjórnmálaflokkar og ríkisstjórn leyfa sér að slá úr og í í mismunandi málum þá er verið að skapa væntingar hjá landsmönnum sem eiga svo kannski enga stoð í raunveruleikanum. Svo líður kannski einn mánuður og þá eru þessar væntingar slegnar út af borðinu. Það er slegið úr og í í hinum og þessum málaflokkum og má segja að það sé nánast í hverju einasta máli sem er til umræðu á Alþingi. Það er margt fólk út um allt land sem berst fyrir byggðarlagi sínu, berst fyrir uppgangi sveitarfélaga sinna, bæjarfélaga sinna. Hvaða skilaboð eru það til fólks sem leggur mikið á sig ef ríkisstjórnin talar út og suður í þessum málum? Ég tel það afar slæmt. Það er allt í lagi að vera með þá stefnu að láta ekki hinn samstarfsflokkinn valta yfir sig en það er annað sjónarmið í þessu og það er að í rauninni er verið að eyðileggja starf þessa fólks.

Það var undarleg fullyrðing, frú forseti, að ætla að þessar breytingar muni ekki hafa í för með sér aukinn heildarkostnað ríkissjóðs. Ég held að það liggi beinlínis í augum uppi. Ég held að það hljóti bara að vera ef menn skoða frumvarpið að þessar tilfærslur munu hlaupa á hundruðum milljóna. Jafnvel yfir einn milljarð. Þetta eru engar smátölur, frú forseti. Þá fer maður að velta fyrir sér þeirri efnahagsstjórn sem landsmenn búa við í dag. Fjárlagafrumvarpið var nú ekki mjög beysið og ekki eru nein merki þess að slaka eigi á í því þensluþjóðfélagi sem við búum við þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um magalendingu í þeim efnum.

Það er mér sérstök ánægja að benda á Handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa sem var gefin út í nóvember 2007. Með leyfi frú forseta vil ég lesa upp úr þeirri merku bók. Í formála er byrjað á því að vitna í Njál Þorgeirsson í Njáls sögu: Með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða. Svo er haldið áfram og sagt:

„Það má til sanns vegar færa að lögin skapa umgjörðina um samfélag okkar og mikilvægt er að hún sé sem einföldust og skýrust. Það hvílir því mikil ábyrgð á ráðuneytunum að búa frumvörp sem best úr garði og skapa forsendur fyrir því að löggjöfin verði sem vönduðust.“

Það má taka þessa handbók og fleygja henni á haugana. Áfram er haldið:

„Með handbók þessari er ætlunin að safna saman á einn stað helstu viðmiðum um vandaða frumvarpasmíð og veita leiðbeiningar um atriði þar sem þörf er aukinnar samræmingar.“ (DSk: Kannski er hún bara fyrir minni hlutann.) Kannski er þessi handbók bara fyrir minni hlutann. Ég held að það sé nokkuð til í því. Ég er ekki viss um að meiri hlutinn hafi lesið þessa handbók áður en hann lagðist í samningu hins svokallaða bandorms sem hér er til umfjöllunar. Þannig að þessi handbók er dauð og ómerk en auðvitað ætlumst við til þess að alla vega verði rennt yfir hana við samningu þeirra frumvarpa sem eiga eftir að koma fyrir hið háa Alþingi.

Það má nú kannski líka segja um Hið einfalda Ísland sem var samþykkt í ríkisstjórn 17. október 2006. Þar segir að leggja þurfi fram gátlista þegar stjórnarfrumvarp er lagt fram í ríkisstjórn sem sýni að gætt hafi verið að ákveðnum lykilatriðum við undirbúning frumvarpa. Ég held að sú stefnuyfirlýsing sé farin fyrir lítið, frú forseti.

Frú forseti. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands er í 11 þáttum. Ég ætla að leyfa mér að fara yfir þá í stuttu máli en hv. þm. Atli Gíslason fór ítarlega yfir þá áðan og var full þörf á því. Í fyrsta þætti eru lagðar fram breytingar vegna flutnings sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Í öðrum þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings ferðamála frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis. Í þriðja þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings alferða frá samgönguráðuneyti til viðskiptaráðuneytis.

Ég held að verið sé að benda á að við flutning sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis koma margir félagslegir þættir sem varða sveitarfélög til með að heyra undir tvö ráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti. Minni hluti allsherjarnefndar telur, og það er mín skoðun, mjög gagnrýnisvert að nafni samgönguráðuneytis skuli ekki vera breytt t.d. í byggða- og samgönguráðuneyti eða sveitarstjórnar- og samgönguráðuneyti. Sveitarstjórnarmálin eru mjög stór þáttur. Áðan fór fram umræða um fjármál sveitarfélaga. Hæstv. menntamálaráðherra hefur boðað frumvörp um breytingar á lögum um grunnskóla landsins sem munu auka mjög á þann vanda sem sveitarstjórnir standa nú þegar frammi fyrir. Ég tel rangt að ætla að taka þennan málaflokk í heild sinni og henda honum inn í samgönguráðuneytið án lýsingar, það gerir málaflokknum ekki hátt undir höfði.

Flutningur ferðamála frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis var mjög gagnrýndur í nefndarálitum og umsögnum. Þar kemur fram að atvinnugreinin er vistuð á ýmsum stöðum í stjórnkerfinu. En samt sem áður er hún færð yfir til iðnaðarráðuneytis þar sem ekkert af málaflokknum er vistað núna. Lög og lagaumhverfi málaflokksins eru á þann veg að bókhald, reikningsskil og upplýsingagjöf ferðastofa heyra undir samgönguráðuneytið. Veitinga- og gistiaðstaða falla undir dómsmálaráðuneyti. Lög um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum og lög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga, lög um bílaleigur og lög um skip og hafnir, falla undir samgönguráðuneytið. Nú á einnig að flytja alferðir til viðskiptaráðuneytis. Þeirri breytingu var nánast einróma mótmælt, hún var einróma gagnrýnd.

Ég sé ekki að þessar tilfærslur komi til með að skapa einfalda stjórnsýslu eða stefnumótun í ferðamálum. Flókin stjórnsýsla ferðamála og mikill fjöldi leyfisveitenda og umsagnaraðila hefur þvert á móti verið ferðaþjónustuaðilum til trafala. Þetta er stór málaflokkur og sérstaklega mikilvægur fyrir hinar dreifðu byggðir landsins sem margar hverjar eiga mjög undir högg að sækja í augnablikinu. (Gripið fram í.) Ertu að mæla fyrir breytingu, hv. þingmaður? Ég fagna því að ræða mín virðist ná eyrum hv. formanns allsherjarnefndar, Birgis Ármannssonar. Hann mun væntanlega gera grein fyrir frammíkalli sínu hér á eftir. En þessar breytingar tel ég því miður til þess fallnar að flækja málin enn frekar og gera þeim sem standa að ferðamálum enn erfiðara fyrir.

Í 4. þætti eru lagðar til breytingar vegna fyrirhugaðs flutnings menntastofnana landsins, menntastofnana landbúnaðarins frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði um að viðurkenning námsframboðs og prófgráða þessara stofnana verði færð til samræmis við rammalög um háskóla, nr. 63/2006. Margir hafa lýst þeim áhyggjum sínum að með þessum tilflutningi kunni tengsl milli skólanna og annarra stofnana landbúnaðarins að raskast. Ég tek undir þau sjónarmið. Ég held að það sé rétt að taka fram að landbúnaðarskólarnir hafa heyrt undir atvinnuvegaráðuneytið frá upphafi og það hefur reynst þeim mjög vel. Þeir hafa verið hluti af heildarstoðkerfi landbúnaðarins og annars atvinnulífs hinna dreifðu byggða. Þar hafa þessir háskólar náð að vaxa og dafna og náð að þróa með sér náið samstarf við atvinnulífið. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, frú forseti, að ég tel mjög undarlegt að enginn rökstuðningur skuli fylgja þessari tilfærslu. Hvergi kemur fram í frumvarpinu af hverju verið sé að þessu, hver séu markmiðin og tilgangurinn. Er tilfærslan gerð tilfærslunnar vegna? Til þess að skipta jafnt á milli ríkisstjórnarflokkanna þannig að Samfylkingin beri ekki of lítið úr býtum? Þetta eru spurningar sem hljóta að skjóta upp kollinum þegar maður veltir þessari tilfærslu fyrir sér.

Þá er það sá þáttur sem hefur kannski sætt mestri gagnrýni í frumvarpinu og það er tilfærslan á Skógrækt ríkisins og Landgræðslunni. Í 5. þætti frumvarpsins er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð á Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins færist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Hins vegar helst ræktun nytjaskóga í landbúnaðarráðuneytinu. Það er því miður ekki hægt að sjá merki einföldunar og hagræðingar í því að kljúfa þennan málaflokk á milli landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra, eins og hér er lagt til og virðist ætla að fljóta í gegn þrátt fyrir mikla gagnrýni.

Mörkin milli skógræktar og landgræðslu annars vegar og nytjaskógræktar hins vegar eru ekki alltaf skýr. Nytjaskógræktin er í eðli sínu ekki frábrugðin öðru skógræktarstarfi og sömuleiðis getur margháttuð starfsemi vel farið saman í skógrækt. Verkefnið Bændur græða landið, sem hefur heyrt undir Landgræðslu ríkisins, verður eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en önnur starfsemi stofnunarinnar flyst til umhverfisráðuneytisins. Þetta mun hafa það í för með sér að fjármunir til rannsókna í skógrækt falla undir bæði ráðuneytin. Ég tel mjög varhugavert að kljúfa málefni skógræktarinnar í sundur á þennan hátt. Ég óttast að málaflokkurinn lendi utan garðs í stjórnkerfinu og því tek ég undir þær tillögur að málaflokkurinn heyri undir eitt ráðuneyti.

Ég kom inn á það áðan að allsherjarnefnd hefði í engu minnst á álit annarra nefnda Alþingis hvað þá tekið tillit til umsagna helstu umsagnaraðila. Mig langar til að lesa hér stuttlega úr umsögnum þessara aðila.

Í umsögn frá Bændasamtökum Íslands segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Stjórn BÍ leggst eindregið gegn því að landgræðsla og skógrækt flytjist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis.“

Í umsögn Skógfræðingafélags Íslands segir, með leyfi forseta:

„Skógfræðingafélag Íslands telur skynsamlegra að öll stjórnsýsla sem snertir skógrækt á vegum ríkisins verði vistuð í einu ráðuneyti.“

Norðurlandsskógar sjá ekki hagræðingu og einföldun í því að kljúfa málaflokkinn skógrækt niður í tvö ráðuneyti.

Skógræktarfélag Íslands telur, með hliðsjón af frumvarpinu, verulega hættu á því að skógræktarstarfið verði ómarkvisst og sundurslitið og málaflokkarnir komi til með að líða fyrir það í heild sinni.

Í umsögn Skógræktar ríkisins segir:

„Að mati Skógræktar ríkisins er hér í uppsiglingu eitt allsherjar stjórnsýslulegt klúður á málaflokknum skógrækt, sem draga mun úr mætti skógræktarstarfs í landinu um ókomin ár.“

Þarna er djúpt tekið í árinni, frú forseti. Maður hefði ætlað að það væri á einhvern hátt, þó ekki væri nema agnarlítinn hátt, komið til móts við alla þá aðila sem eiga þarna verulegra hagsmuna að gæta.

Ég vil svo bæta við að Skjólskógar á Vestfjörðum telja varhugavert að kljúfa málaflokkinn skógrækt á Íslandi milli tveggja ráðuneyta, ekki sé hefð fyrir því í íslenskri stjórnsýslu og hætt við að málaflokkurinn muni lenda utan garðs í stjórnkerfinu.

Þá segir í umsögn Landgræðslu ríkisins að hún hefði kosið að landbúnaðarráðuneytið hefði haft mun meira samráð um málefni Landgræðslu ríkisins. Ég tek undir þau sjónarmið ásamt minni hluta allsherjarnefndar að í uppsiglingu sé stjórnsýslulegt klúður og greinilegt að ekki ríki pólitísk samstaða um þennan flutning.

Enn og aftur vil ég benda á Handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa sem ég brýni fyrir stjórnarliðum og formanni allsherjarnefndar að lesa skilmerkilega.

Í 6. þætti er að finna tillögur um flutning vatnamælinga frá iðnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Ég fagna þessu, frú forseti, en vil þó benda á að ekkert samráð var haft við forsvarsmenn þessara stofnana og starfsmenn sem hafa þungar og réttmætar áhyggjur. Þá skýst sú spurning upp í kollinum: Hvað með samræðustjórnmálin, sem ég hélt að þýddi tölum saman, förum í rólegheitum yfir mál, vöndum okkar þegar við semjum lagafrumvörp?

Í 7. þætti er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð matvælamála, sem nú heyra undir umhverfisráðuneytið, flytjist á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Þetta þýðir að sú starfsemi Umhverfisstofnunar, sem fellur nú undir matvælasvið Umhverfisstofnunar, flyst frá umhverfisráðuneyti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

Almenn ánægja virðist vera með það fyrirkomulag að öll stjórnsýsla á matvælasviði verði sameinuð í einni stofnun undir stjórn sameinaðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Enn og aftur er það gagnrýnt að ekki hafi verið haft samráð við undirstofnanir og starfsfólk. Starfsfólk þessara stofnana hefur með öðrum orðum verðið algjörlega hunsað. Það er mjög óþægilegt að vita ekki hver framtíð þess vinnustaðar verður sem maður hefur kannski unnið á í mörg ár.

Þá bendir maður á að ekki hjálpar til þegar ríkisstjórnin talar út og suður og þetta frumvarp er kannski sönnun þess við hvað við Íslendingar þurfum að búa næstu mánuði. Ég vona innilega að ríkisstjórnin taki sig á í þessum efnum. Það sem helst var þó gagnrýnt varðandi flutninginn á matvælamálunum var heitið Matvælastofnun. Komið hafa fram margar tillögur vegna hins nýja heitis stofnunarinnar af því að hún fjallar um svo margt annað og meira en matvælamál eingöngu. Ég ætla ekki að skera úr um hvaða nafn er best, Matvælastofa, Matvælastofnun, Matvælaeftirlit ríkisins, Matgát (Íslensk matvælagát) og Hollustuvernd. Ég brýni fyrir nýrri ríkisstjórn að ná samstöðu um nýtt nafn (Gripið fram í.) áður en frumvarpið verður að lögum.

Ég verð enn og aftur að segja að ég tel miður að þetta frumvarp hafi verið samið í óðagoti vegna skiptingar ráðherrastóla og án samráðs við undirstofnanir og starfsmenn þeirra sem hafa mesta þekkingu á málaflokknum. Allir sérfræðingarnir voru einfaldlega hunsaðir. Og að leyfa sér svo að segja í frumvarpinu sjálfu að víðtækt samráð hafi verið haft við þær stofnanir sem í hlut eiga er algjörlega óboðlegt, frú forseti. Ég held að það komi í ljós í nefndaráliti meiri hlutans þegar hún tekur saman inn í álit sitt álit annarra nefnda að ekkert samráð var haft, það liggur algjörlega ljóst fyrir.

Frú forseti. Ég skynja vissan leiða hjá óbreyttum þingmönnum hins mikla meiri hluta. Ég finn á vissan hátt til með þeim og ég held því miður að frumvarpið sýni fram á að þeir hafa einfaldlega ekkert um lagasetningu að segja á hinu háa Alþingi, ákvarðanirnar eru allar teknar að ofan. Það eru að mínu mati óverjandi vinnubrögð sem ala af sér óvandaða löggjöf eins og þetta frumvarp og umsagnir um það staðfesta.

Ég vil svo að lokum leggja til að eitthvert annað orð en bandormur verði notað um þetta frumvarp vegna þess að bandormur er neikvætt orð í sjálfu sér. Kannski er það réttnefni á þessu frumvarpi en þegar ný og vandaðri frumvörp verða lögð fram á hinu háa Alþingi verðum við að finna nýtt og betra nafn.