135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[18:00]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði mig nokkurra spurninga og ég skal reyna að fara yfir þær.

Í fyrsta lagi spurði hv. þingmaður að því hvernig farið yrði með það rannsóknastarf sem unnið er á margvíslegum vettvangi innan landbúnaðarháskólanna í landinu. Gert er ráð fyrir að það verði gert þannig að gerðir verði samningar milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins, raunar með aðkomu Bændasamtakanna líka, til þess að tryggja aðkomu okkar að rannsókna- og þróunarstarfinu sem ég er sammála hv. þingmanni að skiptir öllu máli fyrir landbúnaðinn að geti haldið áfram.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því að það slíti á nokkurn hátt tengslin milli bændanna og þessa rannsókna- og þróunarstarfs þó að þessi formbreyting eigi sér stað. Ef við lítum t.d. á Mógilsá, hvernig dettur nokkrum manni í hug þegar það liggur fyrir að Mógilsá hefur í gegnum árin þjónað mjög t.d. landshlutabundnu skógræktarverkefnunum að það starf hætti? Rannsóknastöðin á Mógilsá hefur auðvitað það hlutverk að þjóna því skógræktarstarfi sem mun fara fram á vegum þúsund bænda og vonandi enn fleiri bænda á næstu árum. Þetta starf bændanna heyrir síðan undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem er eðlilegt vegna þess að þetta er atvinnuvegaþáttur sem við viljum og teljum eðlilegt að heyri undir atvinnuvegaráðuneyti. Ég hef ekki áhyggjur af að þetta muni breytast.

Hv. þingmaður spurði mig líka um gæðastýringuna, hvort hún fari frá landbúnaðarráðuneytinu. Nei, hún gerir það ekki, hún verður áfram innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins alveg eins og vera ber. Reyndar er gert ráð fyrir því að við gerum samning við Landgræðsluna um að hún haldi áfram að sinna þeim verkefnum sem hún hefur gert fyrir gæðastýringuna í landbúnaðinum.

Hv. þingmaður spurði mig síðan um nafngiftina. Ég vek athygli á því að í breytingartillögum meiri hluta allsherjarnefndar er gert ráð fyrir því að stofnunin muni heita Matvælastofnun. Það er erfitt að finna þjált og gott nafn til þess að ná utan um þetta fjölþætta verkefni en þetta er að vísu breyting sem ég held að sé til bóta.