135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[18:07]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sex ráðuneyti hafa aldrei verið á dagskrá. Ég hygg að við framsóknarmenn höfum talað um tíu ráðuneyti. Við gerðum okkur grein fyrir að við yrðum að sameina og endurskipuleggja Stjórnarráðið og vorum með í huga og töluðum um tíu jafngild ráðuneyti. Ég fór yfir það í ræðu minni, hæstv. landbúnaðarráðherra, að þetta gæti komið til greina, en það þýðir ekki að segja hér að þetta sé gert á jafnréttisgrundvelli. Hvað fór, hæstv. landbúnaðarráðherra, frá sjávarútveginum? Ekki neitt, hann hélt öllu sínu. Það eru höggnir af landbúnaðinum hinir og þessir vængir sem þar voru fyrir, ráðuneytin fengu ekki að renna saman jafngild. Það er óvirðing í því fólgin og Sjálfstæðisflokkurinn ber fulla ábyrgð þar á. Ég vil að það komi hér skýrt fram.

Ég vona auðvitað að þetta blessist allt en það þarf mikla vinnu. Ég finn það af spurningum mínum að hæstv. landbúnaðarráðherra svarar ekki skýrt. (JBjarn: Nei, hann svarar engu.) Það er ekki nein vinna hafin um samningagerð, engin vinna. Þetta er, eins og kemur fram í nefndarálitinu, sullumbull og óvönduð vinna við að breyta Stjórnarráðinu og færa til verkefni á milli ráðuneyta eins og kemur glöggt fram í góðu nefndaráliti minni hlutans og mörgum umsögnum. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að mönnum kann að þykja það sjálfsagður hlutur að segja já og hafa ekki uppi mikla gagnrýni, því að við þekkjum það líka að menn eru stundum látnir fara miskunnarlaust. Ég finn fyrir miklu meiri ótta hjá embættismönnum í dag en ég fann í umræðu um slík mál þegar ég byrjaði í þinginu. Þá höfðu þeir frelsi og treystu sér til að hafa skoðanir og máttu það kannski.