135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins.

[20:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mér er sagt að fundi fjárlaganefndar hafi verið að ljúka rétt í þessu. Ég hefði kosið að ná tali af fulltrúa okkar í þeirri nefnd áður en þessum fundi yrði fram haldið. Ég vil upplýsa hæstv. forseta og þingheim um að í fundarhléinu kom efnahags- og skattanefnd þingsins saman til fundar til að afgreiða tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Ég treysti mér ekki til að samþykkja að fjárlagafrumvarpið yrði afgreitt út úr þingnefndinni nema að því tilskildu að fyrir lægju samningar Þróunarfélagsins um sölu á eignum á Keflavíkurflugvelli og stærri samningar er varða kaup á þjónustu, vöru og verkum. Þetta snertir einn af tekjuliðum fjárlagafrumvarpsins og ég óskaði eftir því að fyrir nefndina yrðu lagðir þessir samningar áður en hún afgreiddi þá út úr nefndinni. Meiri hlutinn í efnahags- og skattanefnd þingsins féllst ekki á þá málaleitan og var fjárlagafrumvarpið þess vegna tekið út úr skatta- og efnahagsnefnd gegn mótmælum mínum. Ég vildi upplýsa hæstv. forseta um þetta.

Í öðru lagi kveð ég mér hljóðs til að mótmæla því hringli sem hér á sér stað með dagskrá þingsins. Við vorum í miðri umræðu um frumvarp um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, málefni sem við hefðum fyrir okkar leyti getað fallist á að skotið yrði á frest — og reyndar meira en það. Við viljum að lagasetningunni verði frestað þannig að málið fái betri og vandaðri undirbúning frá hendi þingsins en nú eru ráðagerðir uppi um. En þessi breyting á dagskránni sem hæstv. forseti gerir einhliða og án nokkurs samráðs við þingflokksformenn, án þess að reynt sé að kalla þá saman til fundar þannig að við getum í sameiningu ráðið ráðum okkar, er einhliða ráðstöfun sem okkur er tilkynnt um. Síðan er sami hæstv. forseti Alþingis og sama stjórn þingsins að tala um markviss og málefnaleg vinnubrögð á þingi og það er ekki gerð hin minnsta tilraun til að hafa samráð við okkur í stjórnarandstöðu eða þingflokksformenn (Forseti hringir.) þegar verið er að breyta tilhögun með þessum hætti.