135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins.

[20:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið vakin athygli á málefnum Þróunarfélagsins og þeim samningum sem það hefur gert, í reynd fyrir hönd okkar, ríkisins, ríkissjóðs. (ArnbS: Á forseti að skipta sér af því?) Ég vek (Gripið fram í.) athygli á því að við höfum farið þess á leit að samningar sem gerðir hafa verið af hálfu félagsins um sölu á eignum, vöru, þjónustu og verkum verði lagðir fyrir nefndir þingsins þannig að þær geti tekið málefnalega afstöðu í tilviki (Gripið fram í.) efnahags- og skattanefndar um tekjuliði fjárlaga.

Hvað kemur hæstv. forseta þetta við? spyr hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Við erum að afgreiða fjárlög frá nefnd og ég er að vekja athygli forseta þingsins (Gripið fram í.) á því (Gripið fram í.) að málið er afgreitt út úr nefnd án þess að orðið sé við eðlilegum óskum okkar um að fá að sjá mjög veigamikil gögn sem lúta að fjárlagagerðinni. Ég er að vekja athygli forseta þingsins á því. Þar sem hæstv. forsætisráðherra er til staðar langar mig að beina þeirri spurningu til hans hvort hann vilji ekki taka undir með þessari beiðni minni, og okkar, um að gögn í þessu máli verði reidd fram. Hæstv. forsætisráðherra ætlar að flytja Alþingi skýrslu um málið á fimmtudagsmorgun. Er ekki eðlilegt að við sem viljum taka þátt í þeirri umræðu af einhverju viti höfum þau gögn sem ég vænti að séu hæstv. forsætisráðherra aðgengileg? Er ekki eðlilegt að allir málsaðilar sem koma að þessari umræðu á Alþingi fái aðgang að upplýsingum og gögnum en okkur sé ekki skammtað úr hnefa eins og mér sýnist standa til að gera? Það er margoft búið að óska eftir því að þingnefndir fái þessi gögn í hendur þannig að við getum talað um þessi mál málefnalega og af þekkingu. (Gripið fram í.) Ég spyr hæstv. forsætisráðherra (Gripið fram í.) hvort honum finnist til of mikils mælst að við fáum þessar upplýsingar í hendur. Mér fyndist sannast sagna mjög undarlegt ef hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde kysi að þegja um þetta mál þegar verið er að óska eftir því að við fáum eðlilegar upplýsingar og málsskjöl í hendur.