135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[20:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 376 um breyting á lögum nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., eins og þeim var breytt með lögum nr. 156/2006.

Í frumvarpinu er lagt til að frestað verði fjárveitingum að fjárhæð 4 milljörðum kr. sem til stóð að veita á næsta ári af söluandvirði Landssíma Íslands. Ástæðan er fyrst og fremst sú að undirbúningur framkvæmda er skemmra á veg kominn en áður var áætlað og eru þessar breytingar í samræmi við fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár eins og það var afgreitt við 2. umr. í þinginu í gær.

Þær framkvæmdir sem um ræðir varða í fyrsta lagi Sundabraut en þar verður frestað 3 milljörðum af framkvæmdafé ársins 2008 eins og það var upphaflega ráðgert. Þess í stað munu þær fjárveitingar dreifast á árin 2009 og 2010. Eftir sem áður er áformað að verja allt að 900 millj. kr. til Sundabrautar á næsta ári en eins og þingmenn vita háttar þannig til að undirbúningur þessa máls er ekki lengra á veg kominn en svo að 900 millj. kr. eiga að vera meira en nóg til að standa undir kostnaði næsta árs vegna þessa verkefnis.

Í öðru lagi er um að ræða framkvæmdir við Landspítala – háskólasjúkrahús en þar er ráðgert að fresta 700 millj. kr. af því sem áður var áformað framkvæmdafé ársins 2008. Munu þeir fjármunir í staðinn dreifast á árin 2009–2011 en eftir sem áður er áformað að verja allt að 800 millj. kr. til þessa verkefnis á næsta ári. Alveg eins og ég gat um varðandi Sundabraut er staða verksins þannig að þessi fjárhæð, 800 millj. kr., á að vera rífleg til þess að standa undir því sem hægt verður að koma í verk varðandi þessa framkvæmd á næsta ári.

Í þriðja lagi er lagt til að framlag til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða verði flutt til á milli ára, lækki á árinu 2008 úr 600 millj. í 300 millj. og hækki sem því nemur árið eftir. Ég legg til, virðulegi forseti, að máli þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar.