135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[20:29]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Hér hefur hæstv. forsætisráðherra mælt fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. og gert grein fyrir því að þar sé um að ræða frestun á framlögum til þriggja mikilvægra verkefna. Í fyrsta lagi er þar um að ræða frestun á framlagi til framkvæmda við Sundabraut sem áttu samkvæmt gildandi lögum að vera á árinu 2008 3.900 millj. kr. en verða 900 millj. þannig að þar er um frestun að ræða upp á 3.000 millj. sem flytjast til síðari ára. Í öðru lagi er 700 millj. kr. frestun á framlagi til uppbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss sem er þá fært frá árinu 2008 til áranna 2009–2011. Loks á að lækka áður ákveðið 600 millj. kr. framlag til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða í 300 millj. kr., þ.e. um helming, sem flytjist síðan yfir á árið 2009.

Nú má auðvitað margt um þetta segja út af fyrir sig og eins og ég skil rökstuðninginn með þessu frumvarpi í greinargerð og framsögu hæstv. forsætisráðherra er meginröksemdin sú að umræddar framkvæmdir séu þannig staddar með tilliti til undirbúnings að það sé fyrirséð að ekki verði mögulegt að ráðstafa til þessara verkefna því fjármagni sem gildandi lög gera ráð fyrir. Kannski er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt að sé sú staða uppi sé gert ráð fyrir því að framlögum verði frestað.

Ég tek líka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem sagði í ræðu sinni að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefðum út af fyrir sig varað á undanförnum missirum við mikilli þenslu í efnahagslífinu og að við þær aðstæður væri eðlilegt ef dregið yrði úr opinberum framkvæmdum miðað við stöðu mála að það gerðist á höfuðborgarsvæðinu fremur en annars staðar á landinu. Ég lét hafa það eftir mér við 2. umr. um fjárlög að ég væri út af fyrir sig þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt þegar um niðurskurð væri að ræða að hann kæmi þá heldur niður á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar. Þetta sagði ég sérstaklega í samhengi við umræðu um Sundabrautina.

Vitaskuld er það engu að síður bagalegt. Ef við ræðum Sundabrautina sérstaklega er hún mjög mikilvægt samgönguverkefni á höfuðborgarsvæðinu sem lengi hefur verið í undirbúningi. Það er ekkert leyndarmál að það hefur verið flókið verkefni, væntanlega eitt stærsta samgönguverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi og þar af leiðandi er undirbúningur flókinn. Við það bætist síðan að skiptar skoðanir hafa verið á milli sveitarfélagsins Reykjavíkur annars vegar og ríkisins hins vegar um staðsetningu. Hér hefur farið fram ítarlegt umhverfismat vegna legu Sundabrautar og það mál tók síðan í raun og veru nýja stefnu þegar aftur var farið að ræða um möguleika á jarðgöngum á þeirri leið frekar en brú eða stokki. Þetta skýrir vissulega dráttinn á framkvæmdinni og ég skil mætavel að af þeim sökum sé ekki svigrúm eða mögulegt að ráðstafa öllu því fé sem lögin gerðu upphaflega ráð fyrir.

Ég vek samt athygli á því að þetta er bagalegt, þetta er orðin mjög brýn samgöngubót og ég legg áherslu á að reynt verði að halda fast á málum og ákveðið af hálfu samgönguyfirvalda varðandi þessa framkvæmd til að hún komist sem fyrst í gagnið. Hér situr nú í salnum hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem til skamms tíma var bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Þessi framkvæmd er ekki síður hagsmunamál fyrir önnur sveitarfélög en Reykjavík, m.a. og ekki hvað síst Mosfellsbæ. Sundabrautin er sennilega sú framkvæmd í vegamálum sem mundi mest stytta fjarlægðir, ef svo má segja, á milli Vestur- og Norðurlands annars vegar og höfuðborgarinnar hins vegar, a.m.k. í tíma talið þótt ekki sé endilega í kílómetrum. Þess vegna vil ég segja að mér finnst mikilvægt að menn haldi vel á spöðum þannig að þetta mál komist á koppinn.

Hitt sem ég vildi síðan vekja athygli á er Landspítalinn og háskólasjúkrahús í Vatnsmýrinni. Ég hef, og leyni því ekki, nokkrar áhyggjur af því að hér er lagt til að fresta 700 millj. kr. framlagi til uppbyggingar Landspítalans sem verði flutt á milli ára. Ég taldi mig vita nokkuð vel hver staða þessa verkefnis væri og nýt nú þess trausts hæstv. heilbrigðisráðherra að sitja í sérstakri nefnd sem hann skipaði nýlega til að hafa umsjón með þessu máli. Ég hef skilið það þannig á þeim vettvangi að enginn bilbugur væri á mönnum að halda áfram með þetta verkefni. Á skriflegu svari sem hæstv. heilbrigðisráðherra lagði hér fram við fyrirspurn frá Siv Friðleifsdóttur um nýtt sjúkrahús í Vatnsmýri var ekki annað að skilja en að engin stefnubreyting hefði orðið hvað varðar uppbyggingu háskólasjúkrahúss, þ.e. enn þá er stefnt að því að byggja upp Landspítalann í Vatnsmýri við Hringbraut eins og áður hafði verið stefnt að. Mér finnst þess vegna ekki örgrannt um að sú tillaga sem nú liggur fyrir í frumvarpsformi, í 2. gr. þessa frumvarps, fari í bága við þetta svar sem hæstv. heilbrigðisráðherra gaf á þingi við umræddri fyrirspurn — nema ég misskilji eitthvað það sem þar er á ferðinni.

Þess vegna hefði ég viljað leita eftir því við hæstv. forsætisráðherra að hann staðfesti og ítrekaði það sem kom fram í skriflegu svari heilbrigðisráðherra, að þrátt fyrir 700 millj. kr. frestun á framlagi til byggingar Landspítala frá árinu 2008 yfir til áranna 2009–2011 liggi á bak við þá tillögu engin áform um að breyta þeirri stefnu sem hingað til hefur gilt. Hún var ítrekuð af hæstv. heilbrigðisráðherra, eins og ég sagði, í svari á þskj. 301, og ég vildi gjarnan fá staðfest að þarna á bak við liggi ekki við nein áform um að fresta eða draga úr hraðanum á þessu verkefni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt í svona stóru verkefni — og þess vegna er ég sammála því sem hæstv. heilbrigðisráðherra lagði upp með þegar hann skipaði þennan stýrihóp sem ég á sæti í — að vandað sé til undirbúnings verkefnisins. Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að um leið og undirbúningi er lokið sé mjög mikilvægt að uppbyggingin gangi hratt og vel fyrir sig og við verðum ekki með þetta stóra spítalasvæði við Hringbraut í uppnámi í mörg ár. Ég held að það sé gríðarlega þýðingarmikið og þess vegna langar mig að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort hann staðfesti það ekki að engin áform séu um að hverfa frá þeirri stefnu þrátt fyrir þær tillögur sem hér liggja fyrir.