135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[20:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um efni þess frumvarps sem ég flyt hér. Eins og ég gat um er ástæða þess að það er flutt sú að gert hefur verið ráð fyrir í þeim lögum sem hér er rætt um að veittar verði í fjárlagafrumvarpinu fullríflegar fjárveitingar til þessara verkefna miðað við hina raunverulegu stöðu undirbúnings þessara mála.

Það er ekki verið að tala um að fresta framkvæmdum umfram það sem þegar er orðið vegna aðstæðna, alveg eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi. Nýjar vendingar hafa komið upp varðandi Sundabraut. Það mál er ekki klárað á undirbúningsstigi, hvorki út frá skipulagi né umhverfismati. Þess vegna er ástæðulaust að veita meiri fjármuni í það verk en séð er fram á að þörf verði á alveg eins og hv. þingmaður gat um.

Varðandi Landspítalann á hið sama við þar. Ég vil staðfesta það sem hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur þegar sagt á þinginu, og sem hv. þingmaður vitnaði til, að það er ekki verið að hverfa frá þessari framkvæmd með nokkrum hætti. Undirbúningur þessara framkvæmda er í því horfi að á árinu 2007 hefur verið unnið að gerð frumáætlunar á grundvelli þarfagreiningar í samræmi við lög um opinberar framkvæmdir. Þetta er allt saman í vinnslu og eins og hv. þingmaður gat um þekkir hann það auðvitað vel af þeim vettvangi sem hann nefndi.

Í frumáætluninni felst að unnar eru fyrstu teikningar sem sýna skipulag á lóðinni sem og innra fyrirkomulag spítalans og heilbrigðisvísindadeilda sem tengjast háskólanum. Frumáætlunin er unnin í nánu samráði við starfsmenn Landspítala og Háskóla Íslands sem og skipulagsyfirvöld í Reykjavík. Samkvæmt samningi við vinningshafana úr skipulagssamkeppni frá hausti 2005 á frumáætlun að vera lokið í febrúar nk. Þegar áætlunin liggur fyrir er áformað að verkefnið verði lagt fyrir samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og óskað heimildar til þess að hefja endanlega hönnunarvinnu. Þetta er sem sagt í febrúar á næsta ári, herra forseti, eftir rúma tvo mánuði.

Eitt af verkefnum þeirrar nefndar sem hv. þingmaður gat um og hann situr í er að gera þegar í stað úttekt á núverandi stöðu verkefnisins og þeirri undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið. Rétt þykir áður en hafist er handa við sjálfar framkvæmdirnar, þessar risavöxnu framkvæmdir sem munu kosta jafnmikið og ráð er fyrir gert, að fara heildstætt yfir alla liði málsins. Það er það sem núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra vinnur að. Meðal annars er ætlunin að skoða hvort unnt sé að reisa þetta hús með hagkvæmari hætti en núverandi áætlanir miðast við.

Þar með tel ég að ég hafi tekið af öll tvímæli hvað þetta mál varðar og vil gjarnan að það liggi hér fyrir.