135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

frumvarp um skráningu og mat fasteigna.

[20:42]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við upphaf þessa fundar í dag gerði ég stuttlega athugasemd við að það mál sem hér er sett á dagskrá, breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum, væri lagt fram með þeim hætti sem raun ber vitni. Ég gerði athugasemd við að það frumvarp sem hér er lagt fram gerir eftir því sem ég fæ best séð ráð fyrir auknum kostnaði sveitarfélaganna við þetta verkefni en í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins er þess í engu getið og frekar sagt að hæpið sé að um raunverulega útgjaldaaukningu verði að ræða hjá sveitarfélögum eins og segir hér í kostnaðarmati.

Ég fullyrði að þetta er ekki rétt. Verði þetta frumvarp að lögum mun það hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélög og samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögum á að vinna kostnaðarmat sem á að fylgja frumvarpinu þegar það kemur inn í þingið. Það kostnaðarmat á m.a. að vinnast í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það liggur ekki fyrir í þessu frumvarpi og þetta er ekki í fyrsta skipti sem það gerist og ekki í annað skipti. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera með það samkomulag sem hún hefur gert við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað þetta snertir. Inn í þingið koma æ ofan í æ frumvörp sem ekki uppfylla þessi skilyrði samkomulagsins.

Síðan geri ég athugasemd við það líka að í greinargerð með frumvarpinu er þess í engu getið — í greinargerðinni er vísað til þess að frumvarpið sé byggt á niðurstöðum starfshóps sem fjármálaráðuneytið skipaði. Niðurstöðurnar er hvergi að finna. Þær fylgja ekki sem fylgiskjal með þessu frumvarpi. Þær er ekki að finna á heimasíðu fjármálaráðuneytisins og í greinargerðinni er hvergi getið um fyrirvara fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, bæjarstjórans á Akureyri, Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, varðandi kostnaðarhlið þessa máls.

Mér finnst ekki eðlilegt að málið sé tekið hér á dagskrá og ég hef gert athugasemd við það. Ég verð líka að segja, hæstv. forseti, að þegar ég gerði athugasemd við þetta í dag svaraði forseti mér í engu. Þó að ég hafi ekki langa þingreynslu hef ég langa reynslu af starfi í sveitarstjórn og ég hef aldrei upplifað það fyrr að forseti svari því ekki þegar fram kemur rökstudd beiðni um að mál sé ekki tekið fyrir, að forseti segi ekki einu sinni að hann sé ósammála þeirri beiðni. Ég óska eftir því (Forseti hringir.) að forseti kveði upp einhvern úrskurð í þessu máli.