135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[21:03]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra áttar sig að sjálfsögðu alveg á því hvað ég er að fara. Hann talar gegn betri vitund. Hann veit nákvæmlega hvað ég er að tala um og hvað ég er að vísa í. Það liggur fyrir að í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögunum er kveðið á um það í 3. gr. í reglunum að Sambandi íslenskra sveitarfélaga skuli gefinn kostur á að veita umsögn um mat ráðuneytis á reglugerðardrögum á undirbúningsstigi þeirra og lagafrumvörpum. Þetta er samkvæmt þessum reglum sem ríkið hefur undirritað og ég man ekki betur en að einmitt hæstv. fjármálaráðherra hafi verið annar þeirra ráðherra sem skrifaði undir þetta samkomulag.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga var ekki gefinn neinn kostur á því að tjá sig um þann texta sem er í þessu kostnaðarmati þar sem er sagt að kostnaðaraukningin verði engin. Það er kannski bara einfaldast fyrir ríkið að kostnaðarmeta ekki frumvörp fyrir sveitarfélögin eða láta sveitarfélögin ekki sjálfstætt fá möguleika á að tjá sig um kostnaðarmat með því að segja að kostnaðaraukningin verði engin og segja: Það verður engin kostnaðaraukning, og þá þarf ekki að leita álits Sambands sveitarfélaga.

Það er útúrsnúningur. Að sjálfsögðu á sambandið að fá möguleika á því að tjá sig um þetta vegna þess að þetta varðar sveitarfélögin. Þá hefði væntanlega komið í ljós ef ágreiningur hefði verið á milli þessara tveggja aðila um hvort þetta muni leiða til kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Menn hefðu þá getað farið yfir það. Það hefði verið vönduð stjórnsýsla. Kannski er þetta mat ráðuneytisins rétt en ég hef fulla ástæðu til að ætla að svo sé ekki, heldur að þær áhyggjur sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur af kostnaðaraukningu fyrir sveitarfélögin eigi við rök að styðjast. Það er þetta sem ég er að tala um.

Virðulegur forseti. Fjármálaráðherra veit nákvæmlega um hvað ég er að tala um í þessu sambandi.