135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[21:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður veit líka að varðandi kostnaðarmat vegna sveitarfélaga á frumvörpum ríkisins er ekki um skilyrðisleysi að ræða. Ég vil líta svo á að síðasta ræða hv. þingmanns hafi verið hreinar hártoganir og útúrsnúningur þar sem frumvarpið fjallar ekki um annað en kostnaðarskiptingu og greinargerðin þar með. Þegar hann vísar til þess að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi ekki komið að málinu var hann sjálfur í sinni fyrstu ræðu að tala um fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessari nefnd sem um þetta mál fjallaði og um fyrirvara þess fulltrúa um þetta mál og las m.a. upp úr honum um kostnaðinn. Það að gera grein fyrir kostnaði sveitarfélaganna er til þess gert að nefndirnar hafi upplýsingar um það hvaða áhrif frumvörpin geta haft.

Í þessu tilfelli, eins og fram kemur í greinargerðinni og hefur komið fram í ræðu hv. þingmanns, liggja þessar upplýsingar algjörlega fyrir og því ætti nefndinni ekki að vera neitt að vanbúnaði að vinna í málinu og fara yfir það á þeim grundvelli. Ef hún hefur athugasemdir eða vill fá frekari upplýsingar getur hún leitað eftir þeim. Ef eftir þeim verður leitað í fjármálaráðuneytinu verður orðið ljúflega við því að veita þær og koma þeim á framfæri til þess að liðka fyrir störfum nefndarinnar.