135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[21:07]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra segir að greinargerð frumvarpsins sé nánast bara kostnaðarmat. Staðreyndin er þó sú að í því kostnaðarmati segir að það sé hæpið að um raunverulega útgjaldaaukningu sveitarfélaganna verði að ræða. Eftir því sem ég fæ best upplýsingar um deilir Samband íslenskra sveitarfélaga ekki þessari skoðun sem kemur fram í frumvarpinu og hefur leitað eftir skýringum, veit ég í dag frá fjármálaráðuneytinu, og ekki fengið þær.

Þarna eru tvö sjónarmið uppi um hvort þetta leiði til kostnaðarauka. Það er alveg ljóst að samkvæmt því samkomulagi sem ég hef margvísað hér í og fjármálaráðherra þekkir því að hann skrifaði undir ber að sjálfsögðu að vinna slíkt kostnaðarmat og gefa Sambandi sveitarfélaga kost á að veita umsögn um það.

Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að það er ekki skilyrðislaust kostnaðarmat. Ef um er að ræða áætlaðan kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin ber hins vegar að vinna slíkt kostnaðarmat. Ég er undrandi á því að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki einfaldlega segja það. Vönduðustu vinnubrögðin væru þau að láta slíkt mat fara fram til að ganga úr skugga um hvaða áhrif þetta hefði á sveitarfélögin en það er eins og menn séu sí og æ að reyna að koma sér undan því að vinna slíkt mat.

Að lokum, virðulegi forseti, hlýt ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Komi það í ljós í vinnu nefndarinnar eða í frekari vinnslu á kostnaðaráhrifum þessa frumvarps að það hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin, mun þá fjármálaráðherra ekki styðja það að sveitarfélögunum yrði bættur sá kostnaðarauki sem frumvarpið kynni hugsanlega að hafa í för með sér?