135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[21:09]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna. Þar er sérstaklega verið að tala um uppbyggingu á svokallaðri Landskrá fasteigna sem er afskaplega merkilegt fyrirbæri sem hefur oft verið rætt í Alþingi.

Árið 2000–2001 voru samþykkt lög um að hækka gjald á íbúðareigendur og að tilhlutan hv. efnahags- og viðskiptanefndar, sem þá hét, var það gjald hækkað nokkuð í meðförum þingsins, sem er óvenjulegt, átti að standa í fjögur ár og standa undir uppbyggingu þessarar skrár. Það var ákaflega metnaðarfullt verkefni sem fólst í því að allar veðbækur yrðu tölvutækar og öll meðhöndlun fasteigna mjög lipur.

Uppbygging skrárinnar tók lengri tíma en ætlað var og er eiginlega núna fyrst lokið, sjö árum seinna, tók þess vegna sjö ár í staðinn fyrir fjögur, og allan þann tíma hafa fasteignareigendur greitt fyrir þennan stofnkostnað. Á síðasta ári var þetta framlengt um eitt ár og þá var sérstaklega rætt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem ég stýrði þá hvort ekki væri kominn tími til að þessu færi að ljúka. Þá kom fram að í þeirri stofnun sem hefur staðið í þessum framkvæmdum og þessum stofnkostnaði, Fasteignamati ríkisins, var ekki einu sinni gerður munur á rekstri og stofnkostnaði. Það fékkst ekki á hreint hversu stór hluti af þessum gjöldum færi í stofnkostnað og hversu mikið í rekstur. Eðlilega ætti allur stofnkostnaðurinn að hætta þegar búið væri að byggja skrána upp. Svo er ekki.

Þessi skrá nýtist sveitarfélögum óskaplega mikið við að leggja á skatta. Hún nýtist fasteignasölum og öðrum við meðhöndlun og sölu fasteigna, mjög mikil hagræðing að því. Svo nýtist hún tryggingafélögum við að leggja á brunatryggingariðgjald. Þessi skrá er mjög verðmæt og ég vil benda á það, herra forseti, að það eru íbúðareigendur sem hafa staðið undir öllum stofnkostnaðinum og eiga þessa skrá. Þess vegna finnst mér dálítið undarlegt ef þeir eiga að halda áfram að borga af henni og eiga samkvæmt þessari áætlun að borga 141 millj. Ég vil gjarnan að hv. efnahags- og skattanefnd fari sérstaklega ofan í það hvort það sé ástæða til að íbúðareigendur haldi áfram að borga af skrá sem þeir eiga sjálfir, hafa sem sagt staðið algjörlega undir stofnkostnaði við. Ættu ekki hinir aðilarnir sem nýta hana að fara að borga meira?

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gert er ráð fyrir því að stofnkostnaður fasteignamatsins á þessu ári sé um 715 millj. kr. Tekjurnar hafa vaxið í takt við hækkun fasteignaverðs sem hefur hækkað umfram allt annað. Þessar áætlanir um stofnkostnað hafa farið langt umfram það sem áætlað var.

Svo er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að þessi kostnaður lækki um 75 millj. á næsta ári, 10%, herra forseti, þegar stofnkostnaðinum er hætt. Ég hélt að hann mundi lækka miklu meira. Þegar menn fara að reka þetta batterí með miklu auðveldari hætti en áður var vegna þess að það er komin svo fín skrá, fínn stofnkostnaður og fínt hugvit og forrit, hélt ég að reksturskostnaðurinn mundi lækka mikið.

Ég mun leggja til að hv. nefnd fari sérstaklega ofan í saumana á því hvað af þessum rekstrarkostnaði hafi verið stofnkostnaður á þessu ári og hvað rekstrarkostnaður. Það var beðið um það síðast og fengust ekki greinargóð svör við því. Einnig vil ég vita hvort ekki sé óeðlilegt að fasteignareigendur haldi áfram að borga af fínni skrá sem þeir einir hafa hannað fyrir aðra aðila eins og sveitarfélögin, tryggingafélögin og fasteignasala. Ég tel að stofnunin eigi að ná inn meiri tekjum með gjöldum og eigi auk þess að draga saman reksturinn þar sem stofnkostnaðinum er lokið.