135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stjórnarliðar hafa nú ekki verið sérstaklega feimnir við að viðra skoðanir sínar, jafnvel um ágreiningsefni um Evrópusambandið, um evruna eða um hernaðarmálin. Auðvitað vilja menn fá að vita hvað sérstakur hermálaráðherra ríkisstjórnarinnar, formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi haft til þessara mála að leggja. Á maður að trúa því að hún hafi fremur talað fyrir aukningu hernaðarútgjalda á Íslandi, á annan milljarð króna, í stað þess að færa barnafólki raunverulegar kjarabætur?

Hæstv. fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, segir að sér hafi ekki orðið svarafátt. Upphafsorð hans við þessa umræðu voru, með leyfi forseta: „Ég verð að viðurkenna að ég er svona hálfaumur yfir þessu svari sem hv. þingmaður var að vitna til.“ Þetta er nú samkvæmt mínum kokkabókum að verða svarafátt en reyndar skal geta þess sem síðar kom í svarinu, að hæstv. ráðherra vísar til þess að á kosningaárinu hafi ríkisstjórnin bætt verulega í. Svarið hafi því ekki náð nema fram á árið 2005.

Mér finnst ekkert óeðlilegt að spurt sé um afstöðu stjórnarflokkanna og einstakra ráðherra þegar um er að ræða kosningaloforð, loforð sem kjósendum voru gefin fyrir kosningar. Þá er eðlilegt að um það sé upplýst á Alþingi.