135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir og ég tek skýringar hans alveg gildar, svona tæknilega séð. Ég vefengi þær ekkert og ég hygg að þetta sé alveg laukrétt, að þetta skýri muninn. Ég fagna því að sjálfsögðu og tel það náttúrlega rétt hjá hæstv. ríkisstjórn að láta sjómannafrádráttinn frekar njóta vafans og taka af þessari hærri prósentustigshækkun upp á 4,8% eins og skattleysismörkin. Það finnst mér að sjálfsögðu eðlilegt enda er þarna í raun og veru um sérstök skattleysismörk að ræða fyrir sjómenn.

Það sem mér sýnist hins vegar gerast við núverandi aðstæður er að með þeirri aðferð sem barnabæturnar notast við í því tilviki þá munu þær koma óhagstæðar út núna. Ég held að það hljóti eiginlega að segja sig sjálft. En viðmiðunin er önnur og það er notuð sú reikniregla sem þarna hefur verið fylgt. Ég vefengi ekki að það sé rétt.

Skerðingarmörkin fylgja hins vegar launavísitölu og hækka um liðlega 8% og það er í samræmi við meðalhækkun launavísitölu. Þá fór ég að reyna að rifja upp í huganum kauphækkanaprósenturnar samkvæmt enn gildandi kjarasamningum. Er þá ekki nokkuð ljóst t.d. að einnig þarna verða tekjulágir hópar eða fjölskyldur sem eingöngu hafa fengið taxtahækkanir en ekki notið launaskriðs, fyrir skerðingu? Ég held það að sé alveg ljóst að þetta kemur óhagstætt út í slíkum tilvikum.

Það er ekki ofrausninni fyrir að fara og ekki eru launamenn látnir njóta vafans. Ekki eru t.d. barnabæturnar meðhöndlaðar eins og sjómannafrádrátturinn. Það hefði sjálfsagt og örugglega verið hægt að gera, því með því að setja einfaldlega hærri peningaupphæð inn í fjárlagafrumvarpið þá væri hægt að borga hærri barnabætur.