135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

291. mál
[22:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti hyggst halda áfram með dagskrána. Ég spurði: Hve lengi stendur til að halda þessum fundi áfram? Ég vek athygli á því að þingfundur stóð fram á nótt í gær, fram til klukkan hálfeitt. Það eru uppi mjög hörð mótmæli gegn því að þingfundi verði haldið áfram eftir klukkan tíu, það var hæstv. forseta ljóst. Nú óska ég eftir því að annaðhvort verði gert að þingfundi verði slitið eða hlé verði gert á honum og efnt til fundar með forseta þingsins.

Hér eru á dagskrá mál sem munu kalla á allítarlega umræðu og ég vísa í frestun á frumvarpi til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá, það er stórmál. Þar var gert samkomulag, gert var samkomulag við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma sem ríkisstjórnin virðist ætla að rjúfa núna og fer ekki í gengum þingið umræðulaust, það mega menn vita, það er deginum ljósara og það verður ekkert afgreitt sisvona.

Ég óska eftir afdráttarlausum svörum frá forseta þingsins um framhald þessa fundar. Ég hef krafist þess fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þingfundur standi ekki lengur en til klukkan tíu. Við féllumst á það fyrir okkar leyti, í ljósi þess að miklar annir eru í þinginu og við vildum greiða fyrir þingstörfum, að efnt yrði til kvöldfundar í kvöld en með því skilyrði að þingfundur stæði ekki lengur en til klukkan tíu.

Nú óska ég eftir svörum og viðbrögðum forseta þingsins við þessari beiðni okkar.

(Forseti (RR): Einn hv. þingmaður, 4. þm. Norðaust., hefur óskað eftir að taka til máls en forseti hyggst fresta fundi í tíu mínútur.)