135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

samgöngur til Eyja – sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[13:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Að venju fær efnahags- og skattanefnd fjárlög og fjáraukalög til umsagnar frá fjárlaganefnd þingsins. Þar er einkum um að ræða tekjuliði þessara frumvarpa. Nefndin fékk frumvörpin til umsagnar á fundi í gær. Ég óskaði eftir því að áður en nefndin afgreiddi frumvörpin frá sér fengju nefndarmenn í hendur samninga Þróunarfélagsins um eignasölu á Keflavíkurflugvelli svo og samninga um stærri kaup á þjónustu, vöru og verkum. Meiri hluti nefndarinnar varð ekki við þessum tilmælum og voru frumvörpin afgreidd út úr nefnd gegn mótmælum mínum.

Hér er um að ræða allveigamikinn tekjuþátt fyrir ríkissjóð. Tekjuliðir ríkissjóðs byggja iðulega á samningum sem gerðir eru og nefndin óskar ekki eftir því að fá alla slíka samninga í hendur, en á opinberum vettvangi hafa verið settar fram rökstuddar vangaveltur um að sala Þróunarfélagsins á eignum á Keflavíkurflugvelli standist ekki lög. Þá er eðlilegt að þingið og þingnefndir sem um málið fjalla fái öll umbeðin gögn í hendur. Ég árétta það sem fram hefur komið (Forseti hringir.) hjá hv. þm. Atla Gíslasyni og Jóni Bjarnasyni um þessi efni.