135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

samgöngur til Eyja – sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[13:47]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að ræða störf þingsins og þær aðstæður sem þingnefndir hafa. Okkur vantar beinlínis í dag gögn. Það á hér að fara að ræða á morgun um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og við þurfum að sjá samninga. Við þurfum að sjá gögn sem við verðum að geta rætt um við forsætisráðherra og þess vegna hæstv. fjármálaráðherra líka. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá þessi gögn og ég bara vona að menn sjái nú sóma sinn í því að gera okkur það kleift að fá þetta í dag eða á morgun, samninga sem hafa verið gerðir og hvaða greiðsluskilmálar og annað í því eru til þess að við getum rætt þetta á vitrænan hátt á morgun og upplýst kannski þjóðina um hvað sé í gangi á þessu svæði.

Það er engin spurning um að mjög óeðlilega sé að þessu staðið að öllu leyti. Það er ekki bara að fermetraverðið sé lágt þarna heldur eru þarna mýmargir sem vildu kaupa eignir og gerðu tilboð en fengu ekki. Svo eru það skipulagsmálin þarna á svæðinu. Það er ekkert eðlilegt að formaður skipulagsnefndar Reykjanesbæjar sé hluthafi í einu fyrirtækinu sem er að braska með eignir þarna.

Það er svo margt sem við þurfum að fá upp á borðið og ég vona að forseti þingsins sem og þingheimur allur standi og stuðli að því og ráðherrarnir, að við fáum að sjá þessa samninga áður við förum í þessa umræðu á morgun.