135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

samgöngur til Eyja – sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[13:51]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Út af því máli sem hv. þm. Árni Johnsen tekur hér upp þá er mér bæði ljúft og skylt að svara fyrir það hér. Ég vil segja að það ber að harma að þetta skuli gerast. En skipið er gamalt, komið til ára sinna og það er að bila núna. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið þá var síðasta ferð í gær frá Vestmannaeyjum í Þorlákshöfn og síðan sigldi það í Hafnarfjörð í skipakví sem við þekkjum líka, í vélsmiðju Orms og Víglundar, og er þar til viðgerðar. Mér skilst að það verði þó ekki nema tveir heilir dagar — en það er alveg nóg — sem verða frátafir við siglingar Herjólfs. Hins vegar ber að geta þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur mun Selfoss sigla á morgun og koma við í Eyjum, þannig að allt er gert til að þess draga úr þeim skaða sem af þessu hlýst.

Hv. þingmaður nefndi flugið. Það er rétt að núna á ansi mörgum stöðum virðist það kerfi sem hefur verið hingað til, þ.e. að það hafi verið ræstur út mannskapur vegna sjúkraflugs sem hefur fengið greitt samkvæmt samningi fyrir þá vinnu — að það virðist vera eitthvað annað að koma fram hvað það varðar. Það mál er núna til skoðunar hjá Flugstoðum og ég vænti þess að ég fái um það upplýsingar og skýrslu hvernig skuli gera þetta núna á næstu dögum. En það eru fleiri staðir sem eru að koma inn með þetta.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja það í lokin vegna ummæla sem hér hafa verið höfð að núverandi ríkisstjórn er að vinna af fullum krafti að því að bæta samgöngur til Eyja. Það verða 5 milljarðar kr. til ársins 2010. Við vitum um útboð í fluginu. Þar var ferðum fjölgað um sumarið og síðan er það núna nýja ferjan. Drög að útboðslýsingu liggja fyrir. Vonandi verður það auglýst í desember. Við vitum að ferðum með núverandi Herjólfi var fjölgað í sumar og við sjáum það til dæmis núna í tillögum ríkisstjórnar vegna fjárlaga að þar voru settar inn 400 millj. kr. til að leggja nýjan veg niður að Bakkafjöruhöfn sem hvergi var talað um áður og er sett inn.

Ég er því ákaflega stoltur af því sem núverandi (Forseti hringir.) ríkisstjórn er að gera í þessum málum og vænti þess að þetta verði allt til heilla fyrir Vestmannaeyjar.