135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

samgöngur til Eyja – sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[13:55]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Hér hafa fallið stór orð og ekki er víst að allir sem þau hafa látið falla geti staðið við þau. Alþingi hefur ekki verið neitað um neinar upplýsingar. Þær upplýsingar sem beðið hefur verið um eru í höndum ríkisendurskoðanda og hann hefur farið yfir þær. Þær eru að hans mati þess eðlis að þar sé um viðskiptamál að ræða sem ekki eigi að liggja frammi alls staðar. Hann hefur hins vegar boðið nefndarmönnum að koma og skoða þessi gögn með sér til þess að þeir geti gengið úr skugga um að ekkert óeðlilegt sé þar á ferðinni.

Ég fagna hins vegar því sem kom fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni, í hans máli, að hann ætlar að fylgja leiðsögn forseta um það hvernig Alþingi hefur sín samskipti við Ríkisendurskoðun. Hins vegar þykir mér afar miður hvernig hv. þm. Jón Bjarnason, sem er fyrsti talsmaður stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd, gerir sér það að leik í þrígang í ræðu hér undir störfum þingsins að fara rangt með. Hann veit það vel — það hefur margsinnis komið fram — að salan á eignunum uppi á Keflavíkurflugvelli hefur ekki verið í höndum fjármálaráðuneytisins. Samkvæmt sérstökum lögum þar um eru þau í höndum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar sem heyrir undir forsætisráðuneytið og hefur sérstaka stjórn.

Það getur hins vegar verið að rót þessarar umræðu sem hér hefur farið fram og annars staðar á undanförnum vikum sé það sem kom fram í máli hv. þm. Bjarna Harðarsonar, að þetta hefur allt saman gengið miklu betur en menn áttu von á og þess vegna eru menn í vandræðum með það hvernig þeir eigi að fara yfir þetta og umgangast þetta að þeir hafi ekki umkvörtunarefnin sem þeir töldu sig áður hafa. (Forseti hringir.) Ríkisendurskoðun, herra forseti, hefur boðið þingmönnum upp á að fara yfir (Gripið fram í.) þessi gögn með þeim.