135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

samgöngur til Eyja – sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[13:58]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég ætlaði nú að ræða um Vestmannaeyjar en fjármálaráðherra gefur mér tilefni til að bregðast örlítið við. Það er alveg klárt í þjónustusamningi fjármálaráðuneytisins við þróunarfélagið að þróunarfélagið er opinber aðili í skilningi laga og á að hlíta öllum slíkum reglum. Mér finnst líka svolítið undarlegt að fá upplýsingar frá ríkisendurskoðanda í gegnum fjármálaráðherra en ekki hæstv. forseta um að ég eigi kost á því að skoða gögn. Það finnst mér einkennilegt. En ég áskil mér rétt til að fjalla síðar um þennan þátt málsins og aðra.

Að því er Vestmannaeyjar varðar þá ætla ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir hans vökulu augu í þessu máli og hv. þm. Guðna Ágústssyni líka. Ég tek undir orð þeirra. Það liggur fyrir að Vestmannaeyjar hafa verið olnbogabarn í samgöngum, nánast í átthagafjötrum samgönguleysis. Ég verð að benda hv. þingmönnum á að Vestmannaeyjar eru eyjasamfélag og Vestmannaeyjar eru jaðarbyggð og allar reglur evrópskar og innlendar mæla fyrir um að slíkar byggðir fái sérstaka meðhöndlun, jaðarbyggðir þar sem samgöngur eru erfiðar. Því miður hefur þessi hugsun ekki verið ofan á hjá ríkisstjórnum liðinnar tíðar og það er nærtækt að nefna þar skipalyftuna í Vestmannaeyjum sem er í gíslingu ákvarðanatökuleysis. Ég verð að nefna það.

Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að höggva á þann hnút og ég er tilbúinn út frá minni lögfræðiþekkingu að fara í ESA ef þörf krefur út af því. (Gripið fram í.) Fara í ESA.

Vestmannaeyjar er jaðarbyggð, siglingaleiðin milli Eyja og lands er þjóðleið, alveg eins og samgöngur á vegum landsins og þær eiga að vera ókeypis. Þetta (Forseti hringir.) er þeirra ferðamáti.