135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forseta varðandi stöðu ríkisendurskoðanda og upplýsingagjafar á milli þingsins og hans vil ég vekja athygli forseta á því að hæstv. fjármálaráðherra flytur nú boðskap með beinum hætti ríkisendurskoðanda. Ég tel að fjármálaráðherra eigi hvorki að tala fyrir hönd ríkisendurskoðanda né ríkisendurskoðandi fyrir hönd fjármálaráðherra. Ég óska þess vegna eftir að forseti kanni með hvaða hætti svona mál skuli vera borin fram.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að ég hefði þrívegis farið með rangt mál varðandi beiðni um þær upplýsingar og skaut sér á bak við að einhver hluti af stjórnsýslumálefnum þróunarfélagsins heyrði undir forsætisráðherra og þess vegna þyrfti hann ekki að svara því. Þetta finnast mér ekki vera rök, hvernig hæstv. ráðherrar koma málunum fyrir sín á milli, hvort það er hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra sem á að svara fyrir það, það eru meira tæknileg atriði þeirra í milli. Þingið á rétt á að fá öll málin upp á borðið refjalaust. (Gripið fram í.) Með þeim hætti geta þingið og þingnefndir unnið sitt verk, þ.e. tryggt að farið sé að eins og krafist er, að allar upplýsingar liggi á borði gagnvart þeim tölum og forsendum sem unnið er eftir við fjárlagagerð.

Sú krafa stendur óbreytt á fjármálaráðherra því að ég hygg að hæstv. ráðherra geti ekki mælt á móti því að fara beri að að lögum, t.d. um opinber innkaup eða ríkiskaup. Hæstv. fjármálaráðherra er yfirmaður þess málaflokks innan ríkisstjórnarinnar, eða er ekki svo? (Gripið fram í.) Bæði sölu eigna og sölu þjónustu (Gripið fram í: Og kaup.) — og kaup. Ég vil þá að hæstv. forseti kanni hvaða ábyrgð fjármálaráðherra ber almennt á stjórnsýslu sinni ef hann þarf að flækjast undan með þessum hætti. Ég skora því á hann og heimta að allar upplýsingar komi á borðið til þingmanna og þingnefnda varðandi málið, það er öllum fyrir bestu.