135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:06]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég hef kunnað fundarstjórn hæstv. forseta vel. Ég vil gera þó athugasemdir við umræðuna sem hér hefur farið fram og lagði reyndar þá beiðni inn hjá hæstv. forseta að ég fengi að bera af mér sakir. Ég vil bera af mér þær sakir að ég hafi með einhverjum hætti með ræðu minni áðan sýknað ríkisstjórnina og hæstv. fjármálaráðherra í Kadeco-málinu, því fer fjarri.

Ég sagði aftur á móti það sem satt og rétt er að eignirnar á Keflavíkurflugvelli seldust hraðar en menn bjuggust við og þær seldust líka á hærra verði en menn bjuggust við. Ég geri fyrirvara við þær fullyrðingar að það hafi endilega verið undirverð, það er mjög flókin umræða hvert rétt verð eignanna er. Enginn vafi er þó á því að staðið var mjög flausturslega að öllum undirbúningi og ýmsar reglur voru brotnar við meðferð málsins. Vafi leikur á að það sé hæfi aðila ... (Gripið fram í: Ertu enn að tala um fundarstjórn forseta, kannski?) Ég er að því. Ég er að tala um fundarstjórn forseta og bera af mér sakir vegna umræðunnar rétt áðan. (Gripið fram í.) Ég hef ekki fellt sýknudóm yfir fjárlaganefnd eða hæstv. fjármálaráðherra. (Gripið fram í.) en ég hef áhyggjur af því hvernig hinn sterki þingmeirihluti getur stýrt hlutum og framkvæmdarvaldið haft stórar þingnefndir á sinni hendi. Framkvæmdarvaldið getur ákveðið að nefndirnar afgreiði hlutina eftir pöntunum, jafnvel þótt þær séu þannig að ógilda eigi það sem gerst hefur í sögunni. Það sem gerst hefur er að hæstv. fjármálaráðherra gerði samning við einkahlutafélagið Kadeco um 100% þóknun fyrir sölu á eignunum. Þeir samningar eru ákveðnar forsendur fyrir þá sem kaupa þar eignir og þeim verður ekki breytt með samþykkt einnar þingnefndar.

Allt þetta ráðslag sem átt hefur sér stað er langt utan þess sem er sæmilegt í þokkalega góðu réttarríki og ég tel það stjórnvöldum til vansa.