135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:14]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil einmitt ræða um fundarstjórn forseta. Áðan sakaði hv. þm. Ögmundur Jónasson mig sem formann efnahags- og skattanefndar um að hafa ekki veitt honum heimild til að afla gagna. (ÖJ: Ég vildi fá gögnin.) Já. Þá finnst mér að hæstv. forseti hefði átt að gefa mér orðið á eftir honum — það er fundarstjórnin — til að ég gæti réttlætt það og svarað hvernig á því stóð.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ef ég má, með leyfi herra forseta, fara örlítið í efnislega umræðu um þetta? (Forseti hringir.)

(Forseti (StB): Forseti vill taka fram að ef það tengist þeirri umræðu um fundarstjórn þá er ekki gerð athugasemd við það.)

Að sjálfsögðu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á fund nefndarinnar eftir að nefndin hafði kallað til gesti á fyrri fundum og rætt mjög oft um málið, fengið umsögn og fulltrúar Vinstri grænna voru á þeim fundum en ekki hv. þingmaður. Síðan kemur hann þegar fara á að afgreiða málið til hv. fjárlaganefndar á síðustu mínútu, það var klukkan hálfsjö í gærkvöldi, fjárlaganefnd beið eftir umsögninni klukkan sjö. Þá kemur hann og óskar meiri gagna sem enginn hafði (ÖJ: Þetta er andskotans vitleysa, þetta eru útúrsnúningar.) beðið um áður. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu. Það var búið að ræða þetta, það var komin umsögn frá þróunarfélaginu til nefndarinnar.

Þetta finnst mér ekki nógu heiðarlegt því að ég vandaði mig við, herra forseti, að hafa umræðuna málefnalega. Það fengu allir að komast til orðs í nefndinni og fulltrúar þróunarfélagsins voru spurðir mjög ítarlega og grimmt á fundum. Hv. þingmaður veit það náttúrlega ekki því að hann var ekki á fundunum. Fulltrúar Vinstri grænna voru á fundunum og þeir báðu ekki um upplýsingarnar.

Menn geta ekki komið á síðasta fundinn, rétt þegar fara á að afgreiða málið og óskað eftir meiri upplýsingum. Það er bara ekki hægt. Ég gat því miður ekki orðið við ósk hv. þingmanns þegar svona er komið varðandi sölu eigna. Það var þó farið mjög nákvæmlega í málið og fulltrúar þróunarfélagsins spurðir mjög ítarlega.

Herra forseti. Ég biðst velvirðingar á því að ég hafi rætt um málefni undir liðnum um fundarstjórn forseta en ég taldi rétt áðan að forseti gæfi mér, sem formanni efnahags- og skattanefndar, orðið til þess að ræða um störf þingsins því að þetta eru störf þingsins. (ÖJ: Þú þarft að biðjast velvirðingar á fleiru.)