135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:23]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hér flaug hátt í umræðunni hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Össur Skarphéðinsson, og fór mikinn. Var nú sjaldnast í ræðu sinni nærri sannleikanum en skautaði léttilega yfir með árásum í garð Framsóknarflokksins.

Vegna orða hans vil ég segja: Það er hárrétt, sem hann sagði, að við framsóknarmenn stóðum að því í ríkisstjórn og hér á Alþingi að stofnað væri Þróunarfélag um Keflavíkurflugvöll. Við það gerir enginn neinar athugasemdir. Félagið varð til og því voru falin ákveðin verkefni, þannig að við stöndum heils hugar að því.

Gagnrýnin snýr hins vegar að öðrum þáttum sem menn verða að fá á hreint og klára allra hluta vegna. Þar á ég við að ásakanir ganga um starfsemi Þróunarfélagsins, ásakanir í garð hæstv. fjármálaráðherra og fleiri ráðherra, í garð stjórnenda þessa fyrirtækis um samning fjármálaráðuneytisins við Þróunarfélagið um þóknun. Og það er mikilvægt fyrir Alþingi að fá þetta á hreint, við þurfum ekki að deila um það. Ég vil fá það á hreint hver þessi staða er, fjármálaráðherra vill örugglega fá það á hreint. Hann á það skilið að málið sé upplýst, hvernig það er vaxið. Hæstv. forsætisráðherra mun tala á morgun og flytja skýrslu um málið þannig að þá vonandi hreinsast það og skýrist.

En það þýðir ekkert að vera með ásakanir, stofnað var heiðarlegt félag til að fást við þessi verkefni og ég vona svo sannarlega að engir séu sekir um að hafa gengið þar um til þess að þéna sjálfir eða misnota það félag. Við framsóknarmenn styðjum þetta félag til góðra starfa og viljum bara fá á hreint hverjir málavextir eru. Séu einhverjir sekir í því máli þá játi þeir sekt sína og hún komi fram. Þá hreinsast málið út og félagið getur haldið áfram því mikilvæga starfi sem það sinnir á Keflavíkurflugvelli.

Það er ástæðulaust af hæstv. iðnaðarráðherra að belgja sig út í þessum tíma þingsins til þess að ásaka okkur um að við berum ábyrgð á þessu máli frá upphafi til enda. Við fæddum barnið og svo er spurning hvernig það hefur starfað, það þarf að fá á hreint. (Gripið fram í: Ég vísaði bara í bók bókanna.)