135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil andmæla yfirlýsingum hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, um að sú umræða sem hér fari fram sé óeðlileg undir þessum dagskrárlið.

Í fyrsta lagi spunnust þessar umræður af yfirlýsingu hæstv. forseta þingsins. Í öðru lagi erum við að fjalla um vinnulag og umræðu sem stendur fyrir dyrum hér í þinginu og (Gripið fram í.) um gögn sem okkur er nauðsynlegt að hafa í höndum til að geta tekið þátt í þeirri umræðu.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar þingsins, kvaddi sér hljóðs og vék að aðkomu minni að þessu máli. Hann sagði að ég hefði ekki verið til staðar á fundum þegar fyrr hefði verið fjallað um þessi málefni. Staðreynd málsins er sú að ég var utan þings og varamaður í minn stað þegar sú umræða fór fram. Ég hef fengið nákvæma skýrslugerð um umræðuna og hef ekkert við hana að athuga. Ég ræddi það á fundinum í ítarlegum umræðum sem fram fóru í gær, ekki á síðustu mínútu heldur í ítarlegum umræðum sem fram fóru í gær, að þetta mál væri að vinda upp á sig og vegna þess sem fram hefði komið í fjölmiðlum og í umræðum á þingi liti ég svo á að við yrðum að fá þessi gögn í hendur. Hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, varð við beiðni minni um að flytja fjárlaganefnd þingsins þennan boðskap og það gerði hann á fundi nefndarinnar í morgun eftir því sem mér er sagt. Við það hef ég ekkert að athuga. Ég var að gera grein fyrir því hvers vegna ég hefði ekki getað staðið að því að afgreiða fjáraukalögin úr nefndinni, hvaða fyrirvara ég hefði, ég var einfaldlega að gera grein fyrir þessu.

Mér finnst það mjög ranglátt að reyna að gera þetta tortryggilegt með einhverjum hætti. Ég sá ástæðu til, hæstv. forseti, að gera grein fyrir þessu.