135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:28]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist vegna ræðu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur hér áðan, hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Skuggi hvílir yfir störfum ríkisstjórnar og þings þessa dagana vegna sölu eigna á Keflavíkurflugvelli. Mörg stór orð hafa verið látin falla og m.a. ásakanir og spurningar um spillingu. (Gripið fram í.) Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra hefur haft frumkvæði að því, og forseti sett það á dagskrá þingsins á morgun, að flytja munnlega skýrslu um málið.

Hæstv. forseti. Við þingmenn hljótum líka að fá tækifæri til að búa okkur undir þá umræðu. Sú efnisumræða fer ekki fram hér og nú. Hér er verið að ræða það hvaða aðgang menn hafa að gögnum, m.a. til þess að búa sig undir þá umræðu. Ég tel, (Gripið fram í.) herra forseti, og hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að við þingmenn séum í fullum rétti til þess að krefjast þeirra sömu gagna og á að kynna á vegum forsætisráðuneytis og hæstv. forsætisráðherra á morgun, það er málið.

Í öðru lagi hefur enginn verið að ásaka ríkisendurskoðanda í þessu máli. Það er framkvæmdarvaldið, það er hæstv. fjármálaráðherra sem er að skjóta sér á bak við Ríkisendurskoðun. Við þingmenn, sem höfum verið að krefjast þessara gagna, erum ekki að ásaka Ríkisendurskoðun um að liggja á þeim gögnum. Við erum að ásaka framkvæmdarvaldið um að það sé að skipta sér af störfum þingsins og koma í veg fyrir að þingmenn geti búið sig undir mjög brýna og nauðsynlega umræðu á morgun.

Herra forseti, það er nefnilega skítalykt af þessu máli. Það er rétt sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði, það þarf að hreinsa það út. Þá þurfa líka allir að geta komið að umræðunni með sama hætti.