135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fátækt barna á Íslandi.

127. mál
[14:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda var á síðasta vetri lögð fram á Alþingi skýrsla forsætisráðherra um fátækt barna á Íslandi. Þessi skýrsla var tekin saman að beiðni nokkurra þingmanna og var hv. fyrirspyrjandi þar í fararbroddi. Í skýrslunni kom fram talnaefni sem unnið var með hliðsjón af þeim aðferðum sem OECD hafði beitt og voru tölur fyrir Ísland bornar saman við tölur nokkurra OECD-ríkja árin 1994 og 2004. Ekki hefur orðið framhald á þessum útreikningum. Meginástæðan er sú að Hagstofa Íslands birti skömmu síðar fyrstu útreikninga fyrir Ísland um fátækt barna og fleira sem gáfu færi á mun nákvæmari samanburði við önnur lönd en fyrri útreikningar. Þessi rannsókn fer fram ár hvert eftir samræmdri forskrift um framkvæmd, aðferðir, skilgreiningar og úrvinnslu í öllum þátttökuríkjum en það eru öll aðildarríki ESB, Ísland, Noregur og Sviss. Rannsóknin á því að gefa niðurstöður sem eru eins samanburðarhæfar þjóða í milli og kostur er. Þessar fyrstu tölur voru fyrir árin 2003 og 2004 og von er á niðurstöðum fyrir árið 2005 í febrúar á næsta ári og svo koll af kolli. Af þessum sökum liggja því miður ekki fyrir á þessari stundu tölur um árið 2005.

Aðferðafræði hinnar samræmdu lífskjararannsóknar EES-ríkja er um margt svipuð þeirri sem OECD hefur beitt. Í báðum tilvikum er miðað við ráðstöfunartekjur heimila, tekjur eru reiknaðar á neyslueiningu og lágtekjumörk eða fátækt er skilgreind á hlutfallslegan mælikvarða. Skilgreiningar eru þó að sumu leyti ólíkar. Neyslueiningar eru ekki reiknaðar á sama hátt og lágtekjumörkin eru ólík. Samkvæmt skilgreiningu OECD eru lágtekjumörk 50% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu en í evrópsku rannsókninni eru lágtekjumörkin 60% af miðgildi. Í þessu felst að niðurstöður evrópsku lífskjararannsóknarinnar og tölur OECD eru ekki sambærilegar og fleiri teljast undir lágtekjumörkum í evrópsku rannsókninni en í tölum OECD.

Helstu niðurstöður könnunar Hagstofu Íslands eru eftirfarandi:

1. Hér á landi voru 10% barna 15 ára og yngri á heimilum undir lágtekjumörkum árið 2004 samkvæmt evrópsku lífskjararannsókninni. Þetta svarar til um 7.500 barna.

2. Ekki er teljandi munur á stöðu Íslands og annarra Norðurlanda. Hins vegar er talsverður munur á stöðu Norðurlandanna og annarra Evrópuþjóða í þessum efnum. Kemur það heim og saman við það sem hv. málshefjandi nefndi. Fjöldi barna á heimilum undir lágtekjumörkum var þar 8–10% árið 2004 og var hvergi lægri í Evrópu. Hlutföllin voru 8% í Svíþjóð, 9% í Noregi og 10% í Danmörku, Finnlandi og Íslandi. Meðaltal 25 ESB-ríkja var þá 19% og í 13 ríkjanna var hlutfallið 20% eða hærra, hæst 29%.

3. Þessi niðurstaða sýnir að Ísland er í hópi þeirra landa þar sem fátækt barna mælist hvað minnst. Þetta endurspeglast líka í því að fátækt almennt mælist næstminnst á Íslandi á eftir Svíþjóð og að tekjujöfnuður er hvað mestur.

4. Sem fyrr segir teljast fleiri undir lágtekjumörkum í evrópsku lífskjararannsókninni en samkvæmt aðferð OECD. Þetta er þó ekki raunin ef niðurstöður evrópsku rannsóknarinnar eru miðaðar við sama hlutfall af miðgildi ráðstöfunartekna og OECD gerir, þ.e. 50%. Þá mælast um 6% barna hér á landi eða um 4.600 börn vera á heimilum undir lágtekjumörkum árið 2004. Þetta er mjög svipað hlutfall og var árið áður og svipað og þær niðurstöður sem byggjast á aðferð OECD og fram komu í skýrslu forsætisráðherra á síðasta þingi.

Við túlkun þessara niðurstaðna má m.a. hafa eftirfarandi í huga, virðulegi forseti:

1. Hlutfall barnafjölda á heimilum undir lágtekjumörkum er hér á landi og á öðrum Norðurlöndum mjög svipað og hlutfall landsmanna almennt. Börn eru því ekki hópur sem er í sérstakri áhættu í þessum löndum hvað þetta atriði varðar.

2. Rannsóknir sýna að heimili með ráðstöfunartekjur undir lágtekjumörkum staldra stutt við í slíkum hópi. Með öðrum orðum eru lágar heimilistekjur oftar en ekki tímabundið ástand, ekki síst meðal ungs fólks sem varir meðan það er í námi og er að koma undir sig fótunum á vinnumarkaði.

Það er ljóst að skatta- og bótakerfið hefur umtalsverð tekjujöfnunaráhrif eins og sést best á því að mæld fátækt lækkar um nær helming þegar tekið er tillit til þess kerfis. Þá er rétt að hafa í huga að frá því að þessar mælingar voru gerðar hafa bæði barnabætur og skattleysismörk verið hækkuð verulega sem ætti að birtast í enn hagstæðari niðurstöðu en var á árinu 2004. Enn fremur má nefna að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru boðaðar margvíslegar aðgerðir í þágu barna og barnafjölskyldna, m.a. með heildstæðri aðgerðaáætlun í málefnum barna og unglinga sem Alþingi hefur þegar afgreitt. Þar er m.a. kveðið á um hækkun barnabóta til tekjulágra fjölskyldna.