135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fátækt barna á Íslandi.

127. mál
[14:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að vekja athygli og máls á hlutskipti fátækra barna. Það hlýtur að verða okkur tilefni til að spyrja hvað það er helst sem hefur áhrif á hag barnafjölskyldunnar og sérstaklega þeirra sem hafa litlar tekjur.

Í fyrsta lagi að sjálfsögðu tekjurnar sem fjölskyldurnar hafa og húsnæðið. Það er ljóst að á undanförnum árum hefur sigið á ógæfuhliðina í þeim efnum, húsnæðiskostnaður hefur orðið meiri og framlag ríkisstjórnarinnar frá því að hún settist að völdum hefur verið það eitt til þessa að hækka vextina og hvetja bankana til að gera slíkt hið sama.

Í öðru lagi er það heilbrigðiskostnaðurinn. Hvert er framlagið þar? 160 milljónir í komugjöld, með öðrum orðum sjúklingaskatta.

Í þriðja lagi eru það barnabæturnar (Forseti hringir.) sem hæstv. félagsmálaráðherra sagði að væri þjóðarskömm og minnismerki um óheilindi fyrrverandi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) og bætti í í umræðu á þinginu, — ég er að ljúka máli mínu — með leyfi forseta: „Ríkisstjórnin hefur farið illa með barnafjölskyldur (Forseti hringir.) og það verður sannarlega bætt þegar núverandi ríkisstjórn fer frá og við tekur ríkisstjórn okkar jafnaðarmanna.“

Við sáum merkin um það í gær (Forseti hringir.) þegar hún kynnti frumvarp um raunskerðingu barnabóta.