135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fátækt barna á Íslandi.

127. mál
[14:44]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég skildi svar hæstv. forsætisráðherra á þann veg að um 4.500 börn væru undir þessum mörkum hér á landi og gætu talist fátæk. Einnig var dregið fram að ekki væri mikill munur á Íslandi og Norðurlöndunum. Hins vegar væri mikill munur á Norðurlöndum annars vegar og öðrum löndum hins vegar. Í heildina væri staðan því betri almennt á Norðurlöndunum en í öðrum ríkjum. Það er auðvitað ánægjulegt þó að 7.500 börn séu að sjálfsögðu of mikið, ég held að allir geti verið sammála um það.

Það er mjög mikilvægt að mati okkar framsóknarmanna að styðja við barnafjölskyldur með sérstaklega mikilli áherslu á þær sem hafa lægstar tekjurnar og þar koma barnabæturnar til. Sveitarfélögin hafa líka ríkum skyldum að gegna varðandi alla félagslega aðstoð.

Það er gaman að heyra að Samfylkingin skuli taka þessi mál upp af því að fyrir kosningar laug hún því að þjóðinni að hér væri allt í voða varðandi þessi mál, (Forseti hringir.) að hér væru miklu fleiri fátæk börn en annars staðar en það er sem sagt ekki rétt.