135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fátækt barna á Íslandi.

127. mál
[14:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og þingmönnum fyrir þátttökuna. Ég fagna því að fylgjast eigi árlega með fátækt barna og mæla hana og bera saman við önnur lönd. Þannig getum við fylgst með því hvaða árangri aðgerðir okkar skila og þegar hefur verið gripið til ýmiss konar aðgerða og ber að fagna því.

Tölurnar sem hæstv. forsætisráðherra nefndi fyrir árið 2004 komu ekki á óvart, að hér væru 7.500 börn undir lágtekjumörkum. Þær eru í sjálfu sér í samræmi við það sem fram kom í skýrslunni og ekki langt frá því sem gerist á hinum Norðurlöndunum, 2% lakara en í Svíþjóð. Við skulum þó ekki gleyma því að 2% eru 1.500 börn og við eigum ekki að láta af metnaði okkar í að draga úr ójöfnuði í tekjuskiptingu og skapa efnalitlu barnafólki sem bestar aðstæður í samfélaginu.

4.600 börn undir neðri mörkunum, undir 50% mörkunum, er hins vegar of mikið og það er verulega meira heldur en á hinum Norðurlöndunum. Ástæðan er sú að við virðumst ekki ná sama árangri með bóta- og skattkerfinu í að styðja efnalitlar barnafjölskyldur. Boðað hefur verið að milli 2. og 3. umræðu um fjárlög komi tillögur okkar stjórnarmeirihlutans um að leggja til í bótakerfið til að styðja betur við lífeyrisþega, öryrkja og ellilífeyrisþega og það er fagnaðarefni. Ég tel að tölur þær sem við höfum séð um fátækar barnafjölskyldur í landinu gefi okkur fullt tilefni á kjörtímabilinu til að leggja sérstaka áherslu á að styðja afkomu og aðstöðu efnalítilla barnafjölskyldna í landinu þegar og ef svigrúm gefst til skattalækkana. Við erum jú öll sammála um að 7.500 börn undir lágtekjumörkunum og 4.600 börn undir fátæktarmörkum OECD er einfaldlega of mikið.