135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

störf stjórnarskrárnefndar.

187. mál
[15:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Það er full ástæða til. Sjálfur var ég og er áhugasamur um það hvað þessu verki líði. Ég sat og sit kannski enn í síðustu stjórnarskrárnefnd sem að mínu mati vann ágætt starf og ég tel að það hafi verið mistök að taka ekki þá tillögu í gegn sem nefndin lagði þó að lokum til sameiginlega, að breyta aðferð við breytingu stjórnarskrárinnar sem m.a. hefði þýtt að hægt hefði verið að láta sjálfstæða kosningu fara fram um heildarendurskoðun hennar á t.d. miðju þessu kjörtímabili án áhrifa á þingkosningar.

Það er nokkuð athyglisvert að einar þrjár nefndir eru boðaðar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eða yfirlýsingu frá henni og engin þeirra hefur verið skipuð enn þá, þ.e. nefnd um Evrópumálefni, nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar og samráðsvettvangur flokkanna um utanríkis- eða öryggismál. Það virðist ganga lítið undan í ríkisstjórninni, a.m.k. þegar kemur að þessum málum.