135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

störf stjórnarskrárnefndar.

187. mál
[15:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum með þetta svar af því að svarið er: Við ætlum ekkert að gera, við ætlum að fara í málið með áhlaupi einhvern tíma síðar, rétt fyrir næstu kosningar, af því að við erum ekki búin að lenda bátnum þar sem við ætlum að lenda honum núna, við erum ekki búin að ná samstöðu.

Hér upplýsir hæstv. forsætisráðherra okkur um að formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa greinilega ekki náð samstöðu um hvernig eigi að vinna þetta mál áfram. Nú á að láta reka á reiðanum fram undir næstu kosningar.

Ég tel að þetta svar sýni svo mikla ósamstöðu milli stjórnarflokkanna um grundvallaratriði í stjórnarskránni að menn treysti sér ekki til að fara í þetta starf núna. Það að ætla sér að gera hlutina með áhlaupi rétt fyrir kosningar er ekki hægt í þessu máli. Hér er verið að tala um yfirþjóðlegt vald, það er verið að tala um að taka ráðherrana af þingi, verið að tala um dómstólana, kaflann um forsetaembættið, auðlindaákvæðið. Þetta eru bara allt of stór mál, virðulegur forseti, til að hægt sé að taka þau með áhlaupi rétt fyrir kosningar. Ég get ekki túlkað þetta svar öðruvísi en svo, og ég held að það hljóti að blasa alveg við, að það er það mikill ágreiningur á milli forustumanna flokkanna í ríkisstjórn að þeir hafa ekki náð saman um hvernig á að halda á þessu starfi. Nú á að láta reka á reiðanum, það á að setja allt í bið og ekki gera nokkurn skapaðan hlut.

Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort nefndin verði þá hreinlega lögð niður eða hvort hún eigi að vera í einhverjum lausagangi næstu tvö til þrjú og hálfa árið. (Gripið fram í.) Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með þetta svar. Það er alveg ljóst að ósamstaða ríkisstjórnarflokkanna er það mikil að allt þetta starf á að líða fyrir hana.