135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

störf stjórnarskrárnefndar.

187. mál
[15:04]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta mál snýst ekki um ósamstöðu eða ósamkomulag milli stjórnarflokkanna enda hefur ekkert á það reynt. Það hefur ekki verið forgangsmál, það er alveg rétt, að koma þessu máli áfram og það er af þeim sökum sem ég rakti áðan. Það mun ekkert gerast á Alþingi í þessu máli fyrr en í aðdraganda næstu þingkosninga. Þetta mál endaði þannig á síðasta vori eins og hv. þingmaður eflaust man að það var horfið frá því þó að gera þá breytingu sem nefndin hafði lagt til í góðu samkomulagi. Eins og ég sagði áðan endaði það af sérstökum ástæðum þannig.

Hitt er annað mál að nefndin sem hv. fyrrverandi þingmaður og hæstv. fyrrverandi ráðherra Jón Kristjánsson stýrði hefur unnið mikla grunnvinnu og hið sama er að segja um sérfræðinganefndina. Mikil gögn liggja fyrir og miklar upplýsingar og hugmyndir sem þarf að taka afstöðu til og það mun allt saman nýtast þegar þar að kemur. Það er alveg tilgangslaust að ætla að fara að vinna það allt upp á nýtt en þetta er til og að þessu verður hægt að ganga þegar henta þykir og flokkarnir telja það skynsamlegt.