135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

vopnaburður herflugvéla.

202. mál
[15:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það var mikill gleðidagur þegar erlendur her hvarf úr landinu 30. september 2006, ef minni mitt svíkur ekki, og menn gátu haldið upp á herlaust land í fyrsta sinn um áratugi. Tveimur dögum síðar, mánudaginn 2. október 2006, kom Alþingi saman það ár. Undir hið síðasta var málum þannig háttað að Bandaríkjaher hafði á sínum vegum fjórar orrustuþotur, mjög svo frægar og umtalaðar, því að menn höfðu bitið það í sig að það væri sáluhjálparatriði að hafa þær. Kosturinn við veru þeirra var þó sá að þær flugu hér óvopnaðar um langt árabil og báru a.m.k. ekki meiri háttar vopn og sprengjuhleðslur. Það róaði fólk því að vitaskuld eykur það ekki öryggi manna að harðvopnaðar flugvélar sveimi yfir höfðum þeirra.

Nú ber hins vegar svo við að ríkisstjórnin hefur lagt mikið kapp á að fá hingað til æfinga og dvalar erlendar orrustuflugsveitir og það stefnir í að óbreyttu að þjóðin hafi af því hundruða milljóna og jafnvel milljarða kostnað árlega ef lagðar eru saman þær tölur sem fara í að borga uppihald og kostnað við dvöl þessara erlendu hersveita hér, orrustuflugsveita og rekstur hernaðarlega hluta ratsjárstöðvakerfisins. Svo mikið er í húfi að nú hefur hæstv. utanríkisráðherra jafnvel boðað að stofnuð verði sérstök stofnun til að halda utan um þessi mál, hermálastofnun.

Ég vil af þessum sökum spyrja og hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. utanríkisráðherra fyrirspurnir varðandi það hvort fyrir liggi að hinar erlendu orrustuflugvélar muni bera vopn og ef svo er, um hvers konar vopn, skotvopn, flaugar og sprengjuodda verði þá að ræða.

Í öðru lagi hvort leyft verði jafnvel að æfa vopnanotkun á íslensku yfirráðasvæði og ef svo, hvaða reglur muni þá gilda um slíkt sem og um vopnaburðinn sjálfan. Ég þykist skynja mína þjóðarsál það vel að ég held að það yrði Íslendingum ekki fagnaðarefni ef til stendur virkilega að leyfa þessum erlendu orrustuflugsveitum að koma hingað og leika hér einhverja stríðsleiki, æfa sig jafnvel og nota vopn eða herma eftir notkun vopna. Ljóst er að áhugi þeirra á því að koma hingað er ekki síst bundinn því að hér séu kjöraðstæður til æfinga og kannski meira svigrúm en viðkomandi sveitir gjarnan njóta í heimalöndum sínum. Mér finnst miklu skipta, eigi af þessu að verða sem auðvitað er algerlega ástæðulaust og óþarft, að þá sé a.m.k. mótuð um þetta skýr stefna og öllum slíkum vopnaburði hafnað.