135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

vopnaburður herflugvéla.

202. mál
[15:09]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr í fyrsta lagi hvort það liggi fyrir hvort erlendar orrustuflugvélar sem ríkisstjórnin hyggst fá hingað til svokallaðs loftrýmiseftirlits eða æfinga, eins og þar stendur, muni bera vopn. Ef svo er, um hvers konar vopn, skotvopn, flaugar og sprengjuodda verði þá að ræða.

Í ákvörðun fastaráðs Atlantshafsbandalagsins frá 26. júlí 2007 um fyrirkomulag loftrýmiseftirlits aðildarríkja bandalagsins á Íslandi segir m.a., með leyfi forseta:

„Þótt það sé fyrirséð að flugvélar sem taka þátt verði venjulega ekki vopnaðar þarf að gera ráðstafanir til þess að vopn verði til staðar fyrir flugvélarnar á Íslandi til að fullnægja viðbúnaðarþörf landsins.“

Í þessu felst að þátttökuþjóðunum sé í rauninni í sjálfsvald sett hvort vélarnar þeirra fljúgi vopnaðar eða vopnlausar við eftirlit með ótilkynntum og/eða óþekktum loftförum, en flugherir bandalagsþjóðanna hafa nokkuð mismunandi reglur um eftirlitsflug. Gert er ráð fyrir því að beri vélarnar á annað borð vopn komi þær með þau í vélunum, en síðan sé hægt að hýsa þær á staðnum og hér séu þá tiltækar geymslur fyrir vopnin þegar vélarnar fljúga án þeirra. Til dæmis fljúga eftirlitsvélar Bandaríkjanna og Breta venjulega ekki vopnaðar. Flugvélar Frakka og Spánverja fljúga aftur á móti eftirlitsflug ævinlega vopnaðar. Sama gildir um flugvélar Norðmanna og Dana þegar flogið er fyrir ókunnar flugvélar en við æfingar er ekki gert ráð fyrir vopnuðu flugi.

Vopnabúnaður þeirra orrustuþotna sem væntanlegar eru til eftirlits og æfinga á Íslandi á næstu árum ræðst af tegund vélanna. Fyrir liggur að Frakkland hefji eftirlitið snemma næsta vor og mjög líklega beita þeir til þess Mirage 2000 þotum sínum. Vopnabúnaður þeirra samanstendur af tveimur 30 mm fallbyssum og níu flugskeytum af Matra- og Micha-gerð. Bandaríkjamenn sem sjá um eftirlitið síðla sumars 2008 munu líklega beita F-15 orrustuþotum sömu gerðar og voru staðsettar hér á landi síðustu 2–3 áratugina sem varnarliðið hafði hér viðveru. Vopnabúnaður F-15 véla samanstendur af 20 mm fallbyssu og átta flugskeytum af Sidewinder- og Sparrow-gerð og eins og ég sagði fljúga þær ekki vopnaðar í eftirliti. Norðmenn og Pólverjar munu beita F-16 orrustuþotum við eftirlitið en þær eru búnar 20 mm fallbyssu og sex flugskeytum sömu tegundar og F-15 bera.

Spánn sem einnig hefur lýst sig áhugasaman um þátttöku í loftrýmiseftirlitinu en ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um það mun líklega beita hinum nýju Eurofighter-vélum. Slík vél er búin 27 mm fallbyssu auk 13 flugskeyta af mismunandi gerð.

Í öðru lagi er spurt: Verður leyft að æfa vopnanotkun á íslensku yfirráðasvæði? Ef svo er, hvaða reglur munu þá gilda um slíkt, sem og um vopnaburðinn sjálfan?

Æfing í vopnanotkun í þeim skilningi að hleypt verði af byssum eða flugskeytum skotið verður ekki leyfð á íslensku yfirráðasvæði enda standa slíkar æfingar ekki til.