135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

vopnaburður herflugvéla.

202. mál
[15:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi svör og trúi að þessar upplýsingar þyki áhugaverðar. Því miður fór svo sem ég óttaðist, af hálfu Íslands hefur engin sjálfstæð stefna verið mótuð í þessum efnum heldur tökum við einfaldlega við því sem NATO ákveður eða því sem hentar einstökum aðildarríkjum hvað varðar vopnabúnað þeirra flugsveita. Það hefur sem sagt ekki verið gert að skilyrði af Íslands hálfu að orrustuflugvélarnar sem hingað koma verði ekki þungvopnaðar, ekki með flugskeyti og ég geri ráð fyrir því að erfitt verði að taka úr þeim fallbyssurnar en mætti kannski hafa þær óhlaðnar.

Þetta eru mér mikil vonbrigði. Þetta er afturför frá því sem var við lok veru Bandaríkjahers í landinu. Nú koma þjóðir sem haga þessu með öðrum hætti sem er síst fallinn til eftirbreytni.

Ég minni á að þessum orrustuflugsveitum og flugmönnum þeirra þykir eftirsóknarvert að æfa lágflug, æfa aðflug að varaflugvöllum og annað í þeim dúr þannig að þessar vélar fara niður undir byggð á þéttbýlum svæðum. Það getur ekki talist eftirsóknarvert í ljósi tilgangsleysis þess að þær beri hér flugskeyti með sprengjuhleðslum sem reyndar kom ekki fram hversu öflugar geta verið en hægt er kannski að ráða af því sem fram kom um eðli og gerð flauganna. Það er svo sem bót í máli að ekki eigi að leyfa hér beinlínis skotæfingar með vopn, enda bjóst maður ekki við slíku.

Í ljósi þess að yfirlýstur tilgangur þessa eftirlits og þessara æfinga er ekki sá að takast á við aðstæður á ófriðartímum spyr maður: Hvers vegna í ósköpunum er yfir höfuð leyfður vopnaburður undir slíkum kringumstæðum? Væri þá ekki a.m.k. nóg að gera áskilnað um að slíkt skyldi ekki vera nema ef aðstæður væru taldar sérlega ískyggilegar (Forseti hringir.) og það félli þá frekar undir þá hlið þessara mála sem snýr að samskiptum Íslands og Bandaríkjanna (Forseti hringir.) á grundvelli gamla samningsins?