135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

mannvirki á Straumnesfjalli og Darra.

245. mál
[15:18]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er í sjálfu sér áhugaverð fyrirspurn frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Hún gerir það að verkum að maður fer að hugsa um þessi mál með öðrum hætti en áður. Ég vil hins vegar byrja á að svara því, koma strax með stutta svarið við þessari fyrirspurn sem er: Nei, það hefur ekki verið tekin ákvörðun um þetta svo vitað sé. En ég vil líka láta koma fram að þessi mannvirki eru ekki á ábyrgð utanríkisráðuneytisins. Það afhenti þetta allt aftur til einkaaðila.

Mér skilst að Straumnesfjallið hafi á sjöunda áratugnum og Darra strax eftir stríð, t.d. líkt og Heiðarfjalli á Langanesi, verið skilað til eigenda. Þar hafa slík mál einnig verið uppi. Hins vegar er full ástæða til að velta því fyrir sér hvort þarna eigi að fara í frekari hreinsanir eða hitt, sem ég tel að komi ekki síður til álita og geti verið mjög áhugaverður kostur, að sinna þessum mannvirkjum með lágmarksviðhaldi vegna þess að í þeim býr merkileg saga. Þótt menn hafi deilt um þá sögu og haft á henni mjög skiptar skoðanir þá segja mannvirkin merkilega sögu um íslenskt samfélag. Það getur verið mjög áhugavert fyrir bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn, kannski enn frekar þegar fram líða stundir heldur en nú er.

Ég held að menn ættu a.m.k. að hugsa sig um tvisvar áður en þeir láta öll ummerki hverfa. Stundum hefur ofvöxtur hlaupið í tiltekt manna í svona málum og ýmis mannvirki horfið sem við vildum kannski gjarnan eiga núna sem minjar um sögu okkar. Ég vil bara nefna í því sambandi, af því að mér er það nokkuð hugleikið, braggana í Reykjavík. Við eigum ekki neinar minjar um braggabyggðina sem var í Reykjavík og fylgdi hersetunni á stríðsárunum. Við hefðum átt að að passa upp á að varðveita slíkt.

En ég vil hins vegar segja, sem innlegg í þetta mál, að ef það væri áhugi á því að fara í frekari hreinsanir á þessum svæðum þá var áskilið í samningum Íslands og Bandaríkjanna, þegar Bandaríkjamenn fóru af landi brott fyrir ári síðan, að afrakstur af eignasölu á fyrrum varnarsvæðum við Keflavíkurflugvöll yrði m.a. nýttur til hreinsunar á fyrrum varnarsvæðum. Það á auðvitað fyrst og fremst við um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og það umhverfi en hugsanlega má kanna möguleika á fjárveitingum til hreinsunarverkefna af þeim peningum úti á landi þar sem varnarstarfsemi hefur farið fram og þar sem standa hugsanlega eftir einhverjir ruslahaugar eða annað sem menn vilja gjarnan losna við.

Nú segi ég þetta bara sem almennt innlegg í umræðuna án þess að ég hafi kannað það eitthvað frekar. En ég tel að það gæti alveg komið til skoðunar.