135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að málsaðilar í þessu tilviki, hvort sem heldur er Landsvirkjun, sem ætlaði að halda mikla sigurhátíð sem landvættirnar eða máttarvöldin tóku reyndar í taumana gagnvart og kyrrsettu fína fólkið í Reykjavík á föstudaginn var, eða þá Framsóknarflokkurinn, sem hér blæs til umræðu, gerðu rétt í að halda fögnuði sínum og gleðilátum hófstilltum.

Við skulum ekki gleyma því að bygging Kárahnjúkavirkjunar er eitt allra erfiðasta deilumál seinni tíma. Það þverklauf þjóðina og ég held að allir eigi að sýna því tillitssemi. Þeir voru margir sem töldu þær miklu óafturkræfu umhverfisfórnir sem færðar voru með byggingu virkjunarinnar, og þar með talið fjölmargir Austfirðingar, ekki réttlætanlegar. Sú staðreynd hverfur ekki. Þrátt fyrir afstöðu okkar vinstri grænna til þessa máls óskum við að sjálfsögðu starfsfólki sem þarna á í hlut alls góðs og vonum hið besta fyrir hönd Austurlands. En hvaða viðspyrna þessar miklu framkvæmdir, sérstaklega þegar þeim nú lýkur, eiga eftir að reynast í byggðalegu tilliti fyrir Austurland er of snemmt að dæma um. Enginn nema reynslan getur skorið úr því. Það er a.m.k. ljóst nú þegar að þessar framkvæmdir hafa ekki hjálpað jaðarsvæðum Austurlands og í reynd er það aðeins Miðausturland sem hefur enn sem komið er notið góðs af. Við skulum heldur ekki gleyma varðandi aðra atvinnuvegi og efnahagslíf landsins að alls ekki er búið að bíta úr nálinni með þá miklu þenslu, þann mikla óstöðugleika, þá erlendu skuldasöfnun og þær gengissveiflur sem hinar miklu stóriðjuframkvæmdir áttu stóran þátt í að skapa. Mörg kurl sem þessum málum tengjast eiga enn eftir að koma til grafar og ég held að menn (Forseti hringir.) geri rétt í að stilla gleði sinni í hóf.