135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:59]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Um leið og ég þakka þessa umræðu get ég tekið undir með hæstv. iðnaðarráðherra að auðvitað er varla hægt í lok þessarar framkvæmdar annað en að minnast á þá menn sem alltaf stóðu sterkir og fastir á bak við þessi miklu áform. Það er engin spurning í mínum huga að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson voru eins og klettar í hafinu, þeir kiknuðu aldrei undan þeim áróðri sem var blásinn upp gegn framkvæmdunum og það gerði Valgerður Sverrisdóttir sem var iðnaðarráðherra á þeim tíma sem þessar miklu framkvæmdir fóru fram ekki heldur. Þessu fólki ber öllu að þakka fyrir staðfestu, hún var mikil og skipti sköpum.

Ég vil síðan segja um þetta að ég hef vakið athygli á þeirri miklu framkvæmd og miklu breytingu á Austurlandi sem hér er tekið undir. Um leið þarf auðvitað að sinna áfram öðrum byggðarlögum, bæði þar og annars staðar, til að efla atvinnulíf og lífsgæði fólksins. Það er okkar stóra verkefni.

En 800–1.000 störf heim til Austurlands höfðu mikla þýðingu fyrir það byggðasvæði á svo mörgum sviðum þannig að við sjáum árangurinn af þessu og ég verð að segja fyrir mig: Ég hef aldrei botnað í málflutningi vinstri grænna í þessari umræðu. Reyndar í engri umræðu um atvinnumál. Neikvæðnin, að vera á móti, er svo rík að ég segi að ég veit ekki hvar þeirra gamla Ísland er. Við sjáum á svo mörgum sviðum sem hér hafa verið rakin að Austurland er í öðrum sporum. Það er hnjúkaþeyr á Austurlandi sem stafar af þessum framkvæmdum sem hefur mikil áhrif til hagsbóta fyrir fólkið.

Þessi umræða er kannski síðasta umræða (Forseti hringir.) um langt skeið um Kárahnjúka og álver á Reyðarfirði, en hennar verður kannski minnst eftir 5–10 ár, að þar hafi menn þorað (Forseti hringir.) og stigið kraftmikil spor fyrir Ísland og byggðina sína.