135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

upplýsingagjöf til bandarískra stjórnvalda.

82. mál
[18:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra svörin og það er mjög mikilvægt að það komi fram að íslensk stjórnvöld safna ekki upplýsingum fyrir erlend ríki eða sendiráð eins og við þekkjum dæmi um frá tímum kalda stríðsins og þess vegna var eðlilegt að um þetta væri spurt. Spurningunni um það hvernig þær upplýsingar sem ég rakti eru til komnar er hins vegar algerlega ósvarað og ekki er hægt að vísa í að hægt sé að finna þá héraðsdóma sem ég nefndi á netinu. Þetta eru eldri mál og frá dómstólum sem ekki hafa sett þessa úrskurði eða dóma á netið.

Ég nefndi þrjú dæmi um gamla refsidóma, m.a. dóm þar sem fullnægingu refsingar hefur verið frestað og ég nefndi smávægileg brot. Enginn þessara manna sem ég nefndi hefur komist í kast við lögin hvorki fyrir eða eftir þessi tilteknu brot og það er með ólíkindum að þau skuli tekin upp við komu til Bandaríkjanna og þá jafnvel þannig að einum þessara manna var snúið við með sömu vél til baka.

Ég hef eftir að þessi fyrirspurn kom fram fengið mun fleiri dæmi en þau sem ég nefndi. Ég hef ekki getað staðreynt þau en ég fullyrði að um toppinn á ísjakanum er að ræða. Það er miður að menn sem samkvæmt íslenskum lögum hljóta dóma eða refsingu skuli svo vera refsað jafnvel 20 árum síðar á erlendri grundu fyrir sama verknað.