135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

móttaka og vernd flóttafólks og hælisleitenda.

200. mál
[18:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Fyrr í haust ýttu 20 félagasamtök á Norðurlöndunum úr vör átaki sem þau nefna Veitum þeim vernd eða Keep them safe. Átakinu er ætlað að styrkja og bæta vernd í löndunum fimm fyrir þá einstaklinga sem sótt hafa um hæli eftir að hafa neyðst til að flýja heimalönd sín vegna ofbeldis og alvarlegra mannréttindabrota. Enda þótt Norðurlöndin séu í ýmsu tilliti til fyrirmyndar og eftirbreytni á sviði mannréttindamála og hafi stutt vel við starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er ekki allt sem sýnist í þeim efnum.

Í dag eru um það bil 40 millj. manna á vergangi víðs vegar um heiminn. Þetta er fleira fólk en býr á öllum Norðurlöndunum til samans og 15 millj. betur. Af öllum þessum milljónum manna leita aðeins um 30 þús. árlega hælis á Norðurlöndunum. Oft þarf fólk að bíða árum saman eftir ákvörðun stjórnvalda. Slík bið er mörkuð ótta og óvissu um framtíðina. Allt of oft er fólk sent nauðugt aftur til landa þar sem þess bíða stríðsátök og ofbeldi í trássi við tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Túlkun stjórnvalda á Norðurlöndunum á ákvæðum flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna gerir það að verkum að afar fáir hælisleitendur fá stöðu flóttamanna og undanfarinn aldarfjórðung hefur t.d. aðeins einn einstaklingur fengið hæli sem flóttamaður hér á landi. Frá ársbyrjun 1999 hafa 540 manns sótt um hæli sem flóttamenn á Íslandi en aðeins einn fengið slíkt hæli eða tæp 0,2%. Á hinum Norðurlöndunum fá að jafnaði um 3% hælisleitenda stöðu flóttamanns en Finnland sker sig þó úr með um 1%. Þetta eru lægstu hlutföll sem sjást meðal þróaðra ríkja samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, mun lægri en annars staðar í Evrópu og miklu lægri en í Bandaríkjunum og Kanada. Það er ljóst að túlkun stjórnvalda á Norðurlöndum er á skjön við túlkun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sjálfrar en hún hefur lýst yfir stuðningi við átak félagasamtakanna á Norðurlöndum. Ísland sker sig sannarlega úr með svo áberandi hætti að aumkunarvert hlýtur að teljast. Ísland sem býr við hvað bestu kjör í heimi, samkvæmt skýrslu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, ætti einmitt í þessu efni að ganga á undan með góðu fordæmi.

Í tilefni af átaki félagasamtakanna, sem m.a. Rauði kross Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Amnesty International standa að, þar sem þau beina því til stjórnvalda á Norðurlöndum að fylgja tilmælum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem varðar vernd til handa einstaklingum sem sótt hafa um hæli sem flóttamenn, hef ég leyft mér að leggja fram svofellda fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra:

Með hvaða hætti hyggst ráðherra bregðast við áskorun fjölmargra frjálsra norrænna mannréttindasamtaka um norrænt átak til að tryggja fólki sem flýr vopnuð átök þá vernd og hæli eins og því ber samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna?