135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

móttaka og vernd flóttafólks og hælisleitenda.

200. mál
[18:32]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég lýsti hér þeim reglum sem um þetta gilda og hvernig staðið er að móttöku flóttamanna innan þess ramma sem viðkomandi átak snýst um, þ.e. að tryggja fólki vernd sem flýr vopnuð átök og er í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Ég tel að þær reglur sem hér gilda og á Norðurlöndunum brjóti ekki í bága við þann samning. Það hefur margoft gerst að menn hafa komið hingað til lands og óskað eftir hæli sem flóttamenn en þegar farið er yfir málið hefur komið í ljós að þeir segja sögur sem standast alls ekki.

Ég tel að það sé skylda íslenskra stjórnvalda eins og stjórnvalda annarra landa að koma í veg fyrir að menn misnoti sér neyð annarra með því að búa til sögur í því skyni að ná fram eigin hagsmunum. Það verður að forðast að menn nýti sér neyð annarra og hættu sem fólk býr við víða í heiminum til að skara eld að eigin köku, ef svo má að orði komast, með því að segja ósatt um atvik og búa til sögur til að setja stjórnvöld í þá stöðu að þeim beri skylda, af tilbúnum forsendum, til að veita þeim hæli sem flóttamönnum. Það er misnotkun á flóttamannasamstarfinu öllu og flóttamannasamningnum. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að koma í veg fyrir slíka misnotkun eins og alla misnotkun sem við verðum vör við í opinberum störfum.