135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

stimpilgjöld af lánum til húsnæðiskaupa.

97. mál
[18:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég er hér með fyrirspurn um mál sem mikið hefur verið rætt á undanförnum árum og mörgum þykir að sé kominn tími til að skoða og gera breytingar á. Það varðar stimpilgjöld, sérstaklega á húsnæðislánum. Mikil umræða hefur farið fram um það og ég held að flestir séu sammála um að þessi gjaldstofn, eða hvað við eigum að kalla það, skatt eða tekjur sem ríkissjóður fær af því sem heitir stimpilgjöld, sé ósanngjarn.

Í reynd má segja að stimpilgjaldið sé sem slíkt barn síns tíma. Því var komið á fyrir löngu við allt aðrar aðstæður en nú eru á fjármálamarkaði. Í dag er umhverfið þannig að öll skráning er meira og minna rafræn þannig að þessi stimpill, sem væntanlega er vísað til í þessu heiti, á ekki við lengur.

Stjórnmálaflokkarnir hafa rætt mikið um þetta gjald og fyrir síðustu alþingiskosningar voru flokkarnir með þetta mál á málefnaskrám sínum. Stjórnarflokkarnir voru báðir, ef ég fer rétt með, voru með það á sinni stefnuskrá að endurskoða þetta í það minnsta eða leggja af með einhverjum hætti. Fyrir ekki svo löngu síðan komu fram yfirlýsingar, m.a. frá hæstv. viðskiptaráðherra um málið og jafnvel fleiri hæstv. ráðherrum. Mér fannst því nauðsynlegt að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. fjármálaráðherra sem fer með þetta mál og fá afstöðu hans og ríkisstjórnarinnar til þess. Einnig kalla ég eftir upplýsingum varðandi umfang þessara mála o.s.frv.

Ég veit að það er töluvert verk fyrir hæstv. ráðherra og fólk hans í ráðuneytinu að draga saman þær upplýsingar sem ég kalla eftir en engu að síður tel ég nauðsynlegt að þær komi fram. Fyrirspurn mín hljóðar sem sagt svo:

1. Hvenær verður hætt að innheimta stimpilgjöld af lánum til húsnæðiskaupa?

2. Hve miklir fjármunir runnu í ríkissjóð vegna innheimtu stimpilgjalda af lánum til húsnæðiskaupa tímabilið 2003–2006, sundurliðað eftir árum, og hverjar eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldunum árið 2007?

3. Hve margir aðilar greiddu stimpilgjöld af lánum til húsnæðiskaupa á framangreindu tímabili, sundurliðað eftir árum?