135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

stimpilgjöld af lánum til húsnæðiskaupa.

97. mál
[18:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara eins og hann gerði. Það sýnir sig að umfang þessarar gjaldheimtu er gríðarlegt. Af tölum um fjölda greiðenda kemur fram hversu gríðarlega margir eiga hér í hlut þannig að þetta snertir mjög marga.

Ég hins vegar verð að segja að ég hefði átt von á að það kæmi hjá hæstv. ráðherra svar um að þetta væri í einhverri skoðun að minnsta kosti, og menn væru þá jafnvel að velta fyrir sér með hvaða hætti þetta ætti að vera. Ég geri ráð fyrir að ríkið muni vilja hafa einhverjar tekjur af þessum viðskiptum o.s.frv.

En svo virðist sem ríkisstjórnin vinni ekki mikið í þessu máli. Það veldur mér auðvitað vonbrigðum. En ég treysti því að menn muni gera það í framhaldinu. Þetta er jú í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Hér er að mínu mati um mikilvægt mál að ræða sem snertir marga, eins og fram kemur í svari hæstv. ráðherra. Ég nota tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina til dáða í málinu og til að finna lausn á því til frambúðar.