135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

stimpilgjöld af lánum til húsnæðiskaupa.

97. mál
[18:41]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Mér þykir leiðinlegt að valda hv. þingmanni vonbrigðum. Ég hefði mjög gjarnan viljað sjá á eftir þessum skatti eða gjaldi. Hann hefur óneitanlega önnur og neikvæðari áhrif heldur en að vera tekjuöflun. Ég tel hins vegar að meðan húsnæðismarkaðurinn er þannig að verðið er á leiðinni upp og þensla hefur verið eins og við þekkjum þá geti það beinlínis verið neikvætt og hættulegt fyrir efnahagslífið að fara út í að lækka, að ég tali nú ekki um að fella þetta gjald niður.

Það er hins vegar ekki rétt, sem fram kom áðan hjá hv. þm. Þórunni Kolbeins Matthíasdóttur, að stimpilgjöld þekkist ekki annars staðar. Þau þekkjast víða. Þau heita kannski öðrum nöfnum en eru sams konar og hafa sömu neikvæðu áhrifin þar og þau hafa hér. Ég held að bæði ég og hv. þm. sem hafa tekið til máls undir þessari fyrirspurn séum sammála um að stefna beri að því að leggja niður þetta gjald.

En eins og ég sagði áðan þurfum við að velja okkur þann tíma sem hentar, minnug þess að langsamlega stærsti hluti þeirrar verðbólgu sem við höfum verið að glíma við, umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans, eru tilkomin vegna þenslu á húsnæðismarkaði.