135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

úthýsing verkefna á vegum ríkisins.

198. mál
[18:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú ætla ég að vona að það sé algjörlega á hreinu að ég hafi tvær mínútur og þær skreppi ekki saman á meðan ég er að tala. (Gripið fram í.)

Ríkisstjórnin hefur samþykkt nýja innkaupastefnu. Undir hana heyrir útvistunarstefnan og hún er óbreytt frá fyrri ríkisstjórn. Það voru skýr svör og út af fyrir sig þurfti ekki langra ræðuhalda við. Það staðfestist þá þar með að Samfylkingin hefur engin áhrif haft í þeim efnum, tilkoma hennar hefur engu breytt, óbreytt einkavæðingarstefna fyrri ríkisstjórnar gildir, þar á meðal í velferðarmálum og á velferðarmálasviðinu. Þá skyldu menn hafa í huga að eitt af afrekum Samfylkingarinnar við myndun ríkisstjórnarinnar var að afhenda Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið. Hinn langþráði draumur sjálfstæðismanna um að komast í heilbrigðisráðuneytið rættist í vor og Samfylkingin ber auðvitað fulla pólitíska ábyrgð á því, bæði með því að semja þannig um verkaskiptingu innan ríkisstjórnar og með því að vera ábyrgðaraðili að ríkisstjórninni.

Það er mikið umhugsunarefni, frú forseti, og ég held að menn ættu að hafa þær staðreyndir í huga þegar við ræðum málin að öðru leyti, t.d. stjórnarráðsbandorminn og ýmis áform sem þar eru uppi, Innkaupastofnun heilbrigðisráðherra á þjónustu á sviði heilbrigðismála. Það er auðvitað angi af sama meiði að flytja sem allra mest til einkagróðaaflanna og færa víglínuna innar en hún hefur nokkru sinni verið. Það er augljóst mál að einkavæðingarárátta sjálfstæðismanna, frjálshyggjudeildar Sjálfstæðisflokksins, hefur nú fengið aukið olnbogarými. Allt velferðarkerfið er undir og sjálfstæðismaður er húsbóndi í heilbrigðisráðuneytinu. Ég verð að segja að það eru ekki góð tíðindi, frú forseti.