135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

lífríki Hvalfjarðar.

73. mál
[19:05]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil bara ítreka þau orð mín hér að það ber vissulega að fagna því að sveitarfélögin og a.m.k. Hvalfjarðarsveit sýni frumkvæði í þessu efni. Ég á þá von á því að önnur sveitarfélög í kringum Hvalfjörð geri það líka ef rétt er sem hv. þingmaður bendir á að það sé áhugi allt í kringum fjörðinn af því að þarna fer margt fram á einu svæði. Það er auðvitað frístundabyggð, það er útivistarsvæði, það er landbúnaður, það er stóriðja, mjög mikil umferð eins og öllum er kunnugt um og allt þarf þetta að búa saman í sátt og samlyndi í Hvalfirðinum sem er einstaklega merkilegur og mikilvægur fjörður. Ég vil þó segja sem er, frú forseti, að það eru auðvitað margir íslenskir firðir sem hafa sérstöðu hvað varðar lífríki og náttúru og að sjálfsögðu er erfitt að gera upp á milli þeirra rétt eins og fólk gerir ekki upp á milli barnanna sinna. En ég held að það sem skipti mestu sé að grunnrannsóknir á landinu öllu séu til staðar og séu í lagi og séu gerðar. Síðast en ekki síst er mikilvægt að bæði hv. þingmenn, sveitarstjórnarmenn og auðvitað landsmenn allir geri sér grein fyrir því að það er ekki síst vöktun lífríkisins sem er nauðsynleg. Hún er líka kostnaðarsöm. Það þarf að halda henni úti og hún gerir okkur kleift að fylgjast með náttúrunni og bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis.

Samstarfsverkefni um vöktun eða eitthvað slíkt getum við að sjálfsögðu rætt við sveitarfélögin. Allt kostar þetta peninga og það verður þá að tryggja að til séu fjárveitingar til slíkra verka.