135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

eftirlit með ökutækjum í umferð.

123. mál
[19:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég beini tveimur fyrirspurnum til hæstv. samgönguráðherra vegna skoðunar bíla og fjölda óskoðaðra bíla sem eru á götunum hér á landi. Í fyrri fyrirspurninni sem er á þskj. 124 er beint sjónum að eftirliti með því að ökutæki séu færð til skoðunar en slíkt er á ábyrgð eiganda og forsjármanns ökutækis. Nú eru á skrá tæplega 300 þúsund bílar á landinu og almenna reglan er sú að skoða á bílana árlega. Undantekningin eru nýir fólksbílar sem fyrst eru skoðaðir þriggja ára, aftur fimm ára en síðan árlega eftir það.

Skoðun bifreiða hefur það eitt markmið að tryggja umferðaröryggi og því er mikilvægt að hún sé reglubundin og nákvæm, að hún sé án undantekninga og tryggt sé að hún fari fram með sama hætti hvar sem er á landinu, hver svo sem annast skoðunina. Á undanförnum árum hefur oft verið á það bent hversu mikill fjöldi óskoðaðra bíla er á götunum. Fyrirspurnum mínum er öðrum þræði ætlað að vekja athygli hæstv. samgönguráðherra og þingheims á þeirri hættu sem af því stafar en margir telja að eftirfylgni og ábyrgð sé ábótavant í þessum efnum.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar tvær veigamiklar breytingar sem hafa áhrif á hvort bifreiðar eru færðar til skoðunar eða ekki. Fyrst er til að nefna að á árinu 2004 var lögum breytt á þann veg að í stað sekta skyldi lögreglan nú innheimta gjald af ökutækjum sem ekki eru færð til skoðunar. Staðreyndin er hins vegar sú að allt frá því að þessi lög voru sett á árinu 2004 hefur gjaldið ekki verið innheimt og það sem meira er að afklippingum á númeraplötum hefur fækkað að mati þeirra sem gerst þekkja. Það er sem sagt lítil áhætta því samfara að sleppa því að láta skoða bíla og fjárhagslega er beinlínis hvatt til þess að menn mæti ekki með bíla í skoðun því að þá sleppa þeir við skoðunargjaldið um þrjú þús. kr. á ári. Þeir eru síðan ekki rukkaðir fyrir það þegar þeir koma loksins með bílinn til skoðunar.

Hin breytingin sem ég vil nefna og hefur áhrif á varðar gæði bifreiðaskoðunar. Árið 1997 var Bifreiðaskoðun Íslands einkavædd en flestir munu sammála um að gæðum í skoðun hafi á þessu 10 ára tímabili farið aftur og menn spyrja sig hvort samkeppni eigi við í öryggiseftirliti eins og hér um ræðir. Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra hvernig eftirliti er háttað með bifreiðum sem ekki eru færðar til skoðunar, hvort eigendur séu sektaðir sjálfkrafa ef þeir færa ekki bifreið til skoðunar, og loks hvort ráðherrar telji þörf á átaki til að taka skoðuð og ótryggð ökutæki úr umferð?